135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[17:05]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er undarlegt hve hv. þm. Birki Jóni Jónssyni er annt um að ræða þennan hugsanlega möguleika á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Enda þótt við séum sammála í Evrópumálunum höfum við ekki haft uppi sérstaka tilburði til að taka upp samstarf þessara flokka. Enda sýnist mér að hann sé býsna fastur í öðru faðmlagi um þessar mundir og það sé fátt sem getur losað hann úr því.

Hitt er svo annað mál, og það er rétt hjá þingmanninum, að við höfum unnið ágætlega saman og náð saman um ýmis mál, þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu, og það er jákvætt. Þó að afstaða einstakra þingmanna Framsóknarflokksins til Evrópumálanna, sem hér eru til umræðu, hafi stundum komið mönnum svolítið á óvart — flokkurinn virtist ekki hafa eina skoðun í því máli — hefur það ekki komið í veg fyrir að flokkurinn geti farið einn og í heilu lagi inn í ríkisstjórn eða í samstarf hvar sem er. Þannig að allt getur það nú gengið upp. Ef áhugi og vilji er til að ná saman um málefni geta menn að sjálfsögðu unnið saman og ég hef engar sérstakar áhyggjur af mínum flokki eða Framsóknarflokknum í því efni. Ég er sannfærður um að við gætum náð saman ef mál mundu þróast með þeim hætti. En það þarf væntanlega fleiri til og ég sé að í salnum eru nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar sem er ágætt að heyri á þetta tal.

Ég vil hins vegar taka undir með þingmanninum og ítreka það sem hann segir um EFTA-þingmannanefndina. Ég tel mikilvægt, varðandi þau mál sem þar er fjallað um og þau frumvörp og þingsályktanir sem koma inn á þingið og varða aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, að allir þingflokkar eigi sanngjarna aðkomu að þeim málum og það eigi að reyna að finna því þann farveg, t.d. eins og ég hef þegar nefnt með samstarfi utanríkismálanefndar og EFTA-þingmannanefndarinnar, að tryggt sé að allir þingflokkar geti komið að umræðu um þessi mikilvægu mál.