135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:29]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við 1. umr. þessa máls fara nokkrum orðum um atriði sem ég tel mikilvægt að tekin verði til frekari skoðunar í því nefndarstarfi sem fram undan er um málið. Þess ber fyrst að geta að í því er m.a. verið að horfa til reglugerðar sem okkur er ekki skylt að taka upp í íslenskan rétt og mér finnst það nokkuð merkilegt þegar greinargerð með frumvarpinu er skoðuð — og ég þakka fyrir það að hún gefur ágætisyfirlit bæði yfir lagaþróunina hér á landi og eins um efnislegan rétt á þessu svið í Evrópusambandinu — að reglugerðir Evrópusambandsins um samruna fjalla um samruna sem er af allt öðrum skala eða allt annarri stærðargráðu og í allt öðru samhengi en við erum að leggja til að taka upp í þessu máli. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til veltuviðmiðanna sem er að finna í þessu máli og það fyrsta sem ég vil gera í umræðu um það er að fagna því að þeim skuli vera breytt í málinu.

Veltuviðmiðin sem ég er að vísa til og eru svona há í Evrópusambandinu eins og fram kemur í greinargerð með málinu, hafa verið gríðarlega lág á Íslandi og ég hef áður í þingmáli lagt til að þau yrðu hækkuð. Í þessu stjórnarfrumvarpi er lagt til að viðmiðin verði hækkuð og ég tel að ástæða sé til að fagna því þó að ekki sé gengið jafnlagt og ég hafði lagt til að gert yrði í fyrra þingmáli mínu. Ég held að það sé líka ágætistillaga sem fram kemur í málinu að bjóða upp á skemmri tilkynningu þegar skilyrði til þess eru uppfyllt. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að með þetta tiltölulega smáa efnahagslíf sem við búum við á Íslandi geta ratað inn í ramma löggjafarinnar, jafnvel eftir að við hækkum viðmiðin eins og lagt er til í þessu máli, tilvik sem augljóslega er ekki ástæða til að taka til langrar eða ítarlegrar skoðunar og engin ástæða er til að gera kröfu til viðkomandi aðila um að leggja í mikla vinnu við að tilkynna til yfirvalda. Með öðrum orðum, það er skynsamlegt í þessu máli að gera ráð fyrir tilvikum þar sem augljóslega þarf ekki að hafa áhyggjur af áhrifum samrunans og þess vegna finnst mér það góð hugmynd að bjóða upp á svona styttri tilkynningu eins og gert er í þessu máli.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði áðan að þegar við innleiðum ákvæði reglugerðarinnar þurfum við að hafa í huga að við erum með þessi veltuviðmið á meðan allt önnur og miklu hærri veltuviðmið gilda í Evrópusambandinu þegar kemur að samrunum. Það er síðan rakið í þessu þingmáli hver veltuviðmiðin eru í þeim ríkjum sem næst okkur eru og við gjarnan lítum til. Mér sýnist við vera á svipuðum slóðum og Norðmenn en þó eitthvað lægri og töluvert lægri en aðrar þjóðir. Það er kannski ekkert óeðlilegt að við séum með lægri tölur í einhverjum tilvikum en aðrar þjóðir þar sem um miklu stærri hagsmuni er að ræða, meiri veltu og stærra efnahagslíf í öllu samhengi. Að mínu áliti er það umhugsunarvert hvers vegna við erum að taka upp ákvæði reglugerðar sem okkur ber ekki skylda til að taka upp en á hinn bóginn fagna ég því að veltuviðmiðin séu hækkuð.

Næsta atriði sem ég mundi vilja staldra við í þessu máli og tel að þarfnist ítarlegrar skoðunar er ákvæðið um að samruni verði ekki látinn ganga eftir ef Samkeppniseftirlitið hyggst gera athugasemdir. Samkvæmt gildandi lögum er það þannig í dag að samruninn verður gildur og það er á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja að fylgja samrunanum eftir. Hafi Samkeppniseftirlitið sett í gang rannsókn eða skoðun á því hvort samruninn teljist stríða gegn markmiðum samkeppnislaga eða einstökum ákvæðum laganna þá er það á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja að starfa áfram samkvæmt þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar um samruna vegna þess að sá málarekstur sem í hönd fer getur leitt til þess að samruninn verði ógiltur.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft í tengslum við þetta ákvæði að það sé ágætisákvæði fyrir fyrirtækin sjálf, þ.e. reglan um að samruninn geti ekki tekið gildi fyrr en athugun á því hvort samruninn stenst samkeppnislög hefur farið fram og það fyrir dómstólum, en ég hef hingað til hallast að hinu sjónarmiðinu, að það sé heppilegra að fyrirtækin geri þetta upp við sig sjálf og leggi mat á það út frá sínum eigin hagsmunum hvort þau vilji taka þá áhættu sem af þessu leiðir.

Ef það sjónarmið er ríkjandi í þessu samhengi að dómstólarnir eigi erfitt með að standa frammi fyrir því sem við getum kallað orðnum hlut, þ.e. þegar samruninn hefur í raun og veru verið framkvæmdur, kunni það að vera einhvers konar sálfræðileg hindrun fyrir dómstólana að ógilda slíkan samruna og þá eigum við að nota þau rök í tengslum við þetta ákvæði. Ég kannast hins vegar ekki við dæmin um að það sé ástæðan fyrir því að menn vilji innleiða reglu af þessum toga.

Loks held ég að líka sé ástæða til að taka til skoðunar í tengslum við þetta mál hvernig rétt sé að fara með það þegar mál hefur verið ógilt af dómstóli, þ.e. þegar annaðhvort áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstóll, hvort heldur er á héraðsdómstigi eða fyrir Hæstarétti, ógildir ákvörðun um höfnun samruna eða eftir atvikum ógildir þá ákvörðun að setja skilyrði fyrir samrunanum á forsendum formgalla á málsmeðferðinni. Samkvæmt gildandi rétti lýkur málinu þar með en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að taka samrunann til skoðunar að nýju með ákveðnum skilyrðum samkvæmt e-lið 3. gr. Skilyrðið er að Samkeppniseftirlitið skuli taka ákvörðun um höfnun samruna eða setningu skilyrða fyrir samruna í máli sem hefur verið endurupptekið eigi síðar en 30 virkum dögum eftir að endanleg niðurstaða liggur fyrir um ógildingu ákvörðunar stofnunarinnar. Þetta er ágætisregla í þessum tilvikum, þ.e. að setja Samkeppniseftirlitinu mjög þröngan tímaramma í þessu efni.

Hér vegast á hagsmunir atvinnulífsins annars vegar fyrir því að fá endanlega niðurstöðu í mál og hins vegar þeir hagsmunir sem samkeppnislöggjöfinni er ætlað að vernda, að koma í veg fyrir samruna sem stríða gegn markmiðum samkeppnislaganna. Hér þurfa menn virkilega að vanda sig og ég tel að þarna séum við með dæmi um atriði sem þarfnist mjög nákvæmrar skoðunar við vinnu við þetta frumvarp í þinginu og vafalítið að um þetta atriði eiga eftir að koma fram fjölmörg sjónarmið. Ég efast ekki um að menn muni hafa einhvern skilning á því sjónarmiði sem ég vænti að komi fram frá atvinnulífinu um að það sé rosaleg staða eftir langan málarekstur og átök við Samkeppniseftirlitið, þar sem menn telja að þeir séu í rétti að framkvæma samruna, að fara með slíkt mál fyrir áfrýjunarnefnd, síðan fyrir dómstóla og vera komnir með það upp í Hæstarétt þar sem málinu kann að verða vísað frá sökum formgalla. Það er auðvitað rosalegt fyrir viðkomandi fyrirtæki að standa frammi fyrir því að málið hefjist allt að nýju vegna þess að Samkeppniseftirlitið fær samkvæmt þessu ákvæði heimild til að hefja málið upp á nýtt. (Gripið fram í: Ríkisvaldið.) Ef það er erfitt fyrir fyrirtæki að sæta því að mega ekki framkvæma samrunann í upphafi má ganga út frá því sem vísu að þetta mundi endanlega slá samrunann út af borðinu vegna þess að það er í raun og veru algjörlega vonlaust fyrir fyrirtæki að ætla að halda áfram á einhverjum samrunaforsendum, a.m.k. þar sem um er að ræða fyrirtæki sem eru í öllum aðalatriðum eða við skulum bara gefa okkur dæmi um mál þar sem fyrirtæki eru að öllu leyti óskyld, bæði hvað eignatengsl varðar og að þau starfa að öðru leyti óháð hvort öðru þó að þau kunni að vera í samkeppni. Vegna þess að það er eiginlega gefin forsenda í þessu „hýpótetíska“ dæmi að það er algjörlega vonlaust fyrir viðkomandi fyrirtæki að ætla að halda áformum um samrunann áfram eftir að þessi niðurstaða er fengin og hún er í raun og veru sú að það þarf að fara í gegnum „prósessinn“ að nýju.

Ég vildi vekja athygli á þessum atriðum við 1. umr. málsins og þetta eru atriði sem ég tel mjög mikilvægt að verði tekin til skoðunar. Í fyrsta lagi nauðsyn þess að taka upp reglugerðina. Það er í sjálfu sér ekkert erfitt að skilja sjónarmiðin sem rakin eru í greinargerð með þessu frumvarpinu, um að það sé þægilegt að hafa íslensku löggjöfina samhljóða því sem gerist í Evrópusambandinu, en við hljótum samt sem áður alltaf að þurfa að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvað er það efnislega í reglunum, sem við erum að reyna að aðlaga að íslenskum rétti, sem er gott og hollt og skynsamlegt fyrir okkur að taka upp? Það dugar aldrei sem sjálfstæð rök fyrir breytingum á íslenskum lögum að það sé gott að geta litið til fordæmanna erlendis frá. Það getur aldrei dugað sem sjálfstæð rök fyrir því að breyta íslensku löggjöfinni. Það kann að vera hægt að vísa til góðrar reynslu annars staðar frá en fyrst og fremst hefði maður viljað sjá skilgreiningu á þeim vanda sem við erum að glíma við og kalla á lagabreytinguna. Það geta aldrei verið fyrst og fremst þær ástæður að íslenska löggjöfin sé eitthvað frábrugðin löggjöf nágrannaríkjanna, a.m.k. geta þær ekki dugað sem rök fyrir íslenskum lagabreytingum. Það er atriði sem maður verður dálítið hugsi yfir í þessu máli, sem ég hef samt sem áður rakið að er með góða kafla, það eru góðir sprettir í málinu eins og varðandi viðmiðunarfjárhæðirnar. Að öðru leyti vil ég nefna atriðin sem varða það hvort samruni fær að taka gildi og hvernig fara eigi með ef máli er vísað frá vegna formgalla eftir langan málarekstur.

Ég treysti viðskiptanefnd þingsins afskaplega vel til að fara ofan í þetta og vænti þess að við 2. umr. verði farið aðeins dýpra í þessi atriði eftir að kallað hefur verið eftir sjónarmiðum frá umsagnaraðilum.