135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:43]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlýða á mál þingmannsins. Auðvitað orkar allt tvímælis sem snýr að þessum málum, viðkvæm samkeppnismál o.s.frv. Leitað var umsagna mjög víða um þessa frumvarpssmíð þegar hún stóð yfir í ráðuneytinu og rætt var við marga um málið og þetta varð niðurstaðan. Það voru að sjálfsögðu efasemdir í báðar áttir um að hækka veltumörkin. Menn lögðust mjög einarðlega gegn því í aðra áttina og aðrir höfðu miklar efasemdir um samrunaákvæðið, að það tæki ekki gildi fyrr en eftir að um málið hefði verið fjallað.

Það sem sannfærði mig um að það væri lagabót að breyta þessu svona var að mér finnst það ósanngjarnt gagnvart fyrirtækjunum að samruni sem hefur verið ákveðinn og byrjað er að starfa eftir sé látinn ganga til baka af eftirlitinu. Ég held að það sé erfitt bæði fyrir Samkeppniseftirlitið og hlutaðeigandi í samrunanum að hann sé látinn ganga til baka eftir að um hann hefur verið tekin ákvörðun og byrjað er að starfa samkvæmt honum. Ég held að þetta sé miklu sanngjarnara fyrirkomulag bæði fyrir fyrirtækin og eftirlitsstofnunina að vinna eftir og þá þarf hins vegar að tryggja mjög skjótan málahraða. Hér er lagt til að lögfest verði heimild til handa eftirlitinu um að taka mál fyrir að nýju vegna formgalla eins og þingmaðurinn nefndi og hafði ákveðna fyrirvara um. Ég held að það séu kannski örfá tilvik sem hvort tveggja ætti við um. En þá má þess geta að hér eru málsmeðferðarfrestir hafðir mun styttri en almennt er til að koma til móts við það sjónarmið sem þingmaðurinn nefndi og er fullkomlega gilt sjónarmið sem ég ber mikla virðingu fyrir. Reynt var að koma til móts við þetta til að sætta þessi tvö sjónarmið, að þarna væri endurupptökuheimild en hún væri bundin við mjög skamman frest þannig að ekki væri verið að hleypa allri hringekjunni af stað aftur.