135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:45]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í vafa um að öllum sjónarmiðum hefur verið velt upp við samningu þessa frumvarps og á það bæði við varðandi veltumörkin og hvenær samruni telst eða má eiga sér stað í reynd. Það á jafnframt við um mál sem vísað er frá vegna formgalla.

Varðandi veltumörkin: 50 millj. kr. viðmið, hvers konar viðmið eru það sem gildandi lög hafa? Ef við gefum okkur að viðkomandi fyrirtæki sé t.d. í vöruviðskiptum má mjög gróft áætlað tala um að eigin tekjur þess fyrirtækis séu í kringum 20–25 millj. kr. Það geta verið fyrirtæki með allt niður í tvo til þrjá starfsmenn. Fyrirtæki sem tekin voru yfir af öðrum félögum og veltu einum milljarði eða meira þurftu sem sagt að tilkynna það til Samkeppniseftirlitsins. Það þurfti svo að setja mannskap í að skoða tilvik þar sem félag með allt niður í tvo til þrjá starfsmenn var keypt. Það var auðvitað engin glóra í þessu. Þess vegna er það vel að ráðherrann skuli hafa fallist á þau sjónarmið að hækka þyrfti viðmiðunarmörkin.

Varðandi hitt hvort það sé Samkeppniseftirlitinu og jafnvel fyrirtækjunum fyrir bestu að láta samrunann ekki taka gildi þá fellst ég alveg á það. Það má alveg hafa skiptar skoðanir um það atriði. Ég kem hingað upp í 1. umr. um málið fyrst og fremst til að vekja athygli á atriðum sem ég tel mikilvægast að verði skoðuð mjög gaumgæfilega í meðförum þingsins.