135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[18:05]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þær umræður sem hafa átt sér stað hér um þetta mál hæstv. viðskiptaráðherra hafa verið á margan hátt athyglisverðar. Kannski er það athyglisverðasta í þessu að ríkisstjórnin virðist ekki vera einhuga um hvaða leið eigi að fara. Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Sigurður Kári Kristjánsson fannst mér í meginatriðum leggjast gegn mörgum ákvæðum þessa frumvarps. Nóg um það.

Þessi samkeppnislög voru sett árið 1993 til þess að efla samkeppni á innlendum mörkuðum. Þær reglur um samrunaeftirlit eru ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki breyti gerð markaðarins og dragi úr samkeppni með samruna eða yfirtöku. Því eru samrunareglurnar einn af hornsteinum samkeppnisréttarins og gegna mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaðarins sé breytt með samruna eða yfirtöku á þann hátt að samkeppni hverfi eða minnki til muna.

Það er nú einfaldlega þannig að yfirtaka eins fyrirtækis á öðru eða samruni fyrirtækja getur leitt til þess að samkeppni sem hefur verið til staðar minnki eða hverfi jafnvel alveg. Það er nú aðalatriði þessa máls að hér sé virk samkeppni vegna þess að íslenskur viðskiptamarkaður er einfaldlega ekki það stór að hann þoli einokun eða fákeppni. Hér eru hagsmunir neytenda hafðir í fyrirrúmi og sá er tilgangurinn með þessum reglum öllum.

Hér var mikið rætt um að viðskiptalífið þurfi að fá að virka á sem eðlilegastan og frjálsan hátt. Ég get tekið undir það. En á móti vil ég þá segja að það verður að vera í fullu samræmi við hagsmuni neytenda á því að hafa virka samkeppni og þeir hagsmunir eru nú oft afar mikilsverðir í okkar litla samfélagi.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að Ísland er ekki bundið við að innleiða reglugerðina í íslensk lög að öðru leyti en því sem gert var með lögum nr. 44/2005. En ég vil segja að ég verð að viðurkenna að ég fagna því. Hér áðan var rætt frumvarp um ólögmæta viðskiptahætti og gegnsæi markaðarins þar sem er verið að innleiða tilskipun sem við hér á hinu háa Alþingi getum hvorki slakað eða breytt, hvorki aukið né minnkað neytendavernd sem mér finnst mjög bagalegt. Það að við þurfum ekki að innleiða þessa reglugerð segir í rauninni að við fáum eitthvað um það að segja hvernig þessar reglur gilda hér á landi enda ljóst að aðstæður hér eru á margan hátt mjög ólíkar því sem gerist á hinu Evrópska efnahagssvæði eða jafnvel í Skandinavíu. En ég mun kannski koma betur að því hér á eftir.

Í frumvarpinu er lögð til hækkun á veltumörkum sem miða skal við þegar metið er hvort samrunar séu tilkynningarskyldir. Gert er ráð fyrir að skylt verði að tilkynna samruna til Samkeppniseftirlitsins ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 2 milljarðar kr. eða meiri og ársvelta að minnsta kosti tveggja af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum yfir 200 millj. kr. Það má kannski segja að þetta séu annars vegar hærri mörk og svo hins vegar hærri mörk. Ég held að það hafi verið full ástæða til þess að hækka þessi lægri mörk vegna þess að fyrirtæki með veltu upp á 50 milljónir eins og er í núgildandi lögum — að það má í rauninni segja að þetta séu nánast öll fyrirtæki á Íslandi.

Ég tók eftir því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fögnuðu þessari hækkun sérstaklega. Ég tel að við þurfum að skoða þetta mál mjög ítarlega í viðskiptanefndinni og skoða hvaða fjárhæðir séu eðlilegar. Fjárhæðunum var síðast breytt með lögum nr. 107/2000 en kannski hefði átt á þeim tíma að vísitölubinda þær fjárhæðir á einhvern hátt.

Ég held að það sé mun sterkara einfaldlega að efla Samkeppniseftirlitið. Ég veit að það er mikill málafjöldi hvað varðar samruna fyrirtækja. En ég held að því sé enn ríkari ástæða til þess að efla Samkeppniseftirlitið. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vissum vonbrigðum þegar Fjármálaeftirlitið var eflt núna í haust að Samkeppniseftirlitið skyldi ekki hafa fylgt með vegna þess að það má segja að Fjármálaeftirlitið hafi hlutfallslega verið eflt mun meira. En Samkeppniseftirlitið er að sjálfsögðu alveg jafnmikilvægt og Fjármálaeftirlitið.

Hér hafa komið fram vangaveltur hvað varðar samanburð við Svíþjóð, Danmörku og önnur norræn ríki. Ég veit að veltumörkin þar eru mun hærri. En þar eru líka mun fjölmennari lönd. Það búa um níu milljónir manna í Svíþjóð og um fimm milljónir í Danmörku og Noregi þannig að ég tel fulla ástæðu til þess að þetta verði kannað sérstaklega í viðskiptanefnd því markaðsaðstæður á Íslandi eru um margt sérstakar vegna þess að markaður hér er smár og þau fyrirtæki sem á honum starfa.

Í annan stað er í frumvarpinu gert ráð fyrir að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann samanber 3. mgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Samkvæmt núgildandi lögum tekur samruni gildi óháð skoðun Samkeppniseftirlitsins þó samningar séu í raun gjarnan gerðir með fyrirvara um samþykki eftirlitsins. Ég held að þetta sé breyting í rétta átt. Það er mikið óhagræði af gildandi fyrirkomulagi, að nýr lögaðili verði til um leið og samruni fyrirtækisins taki gildi og þá verða allir samningar þess lögaðila að ganga til baka ef Samkeppniseftirlitið ógildir samruna sem þegar hefur átt sér stað. Ég held að framkvæmdin sé í raun þannig að flest fyrirtæki bíða með að láta samningana taka gildi. En það er mjög mikið óhagræði af því að vinda ofan af nýjum lögaðila þegar samruni hefur átt sér stað.

Í þessu frumvarpi er mælt fyrir um heimild handa Samkeppniseftirlitinu til að taka mál fyrir að nýju hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla. Ég held að þetta sé jákvæð breyting á margan hátt. Ég held að hagsmunir neytenda séu fyrst og fremst fólgnir í því að Samkeppniseftirlitið fái að fjalla efnislega um málið. Það er mjög svekkjandi bæði fyrir allt viðskiptalífið sem og neytendur að lítill formgalli skuli í rauninni koma í veg fyrir það að ekki skuli vera hægt að fjalla um málið efnislega. Ég held að það sé á vissan hátt komið til móts við þá sem halda því fram að þetta muni lengja málsmeðferðartíma sem við viljum að sjálfsögðu ekki. En þá er líka gert ráð fyrir í frumvarpinu að Samkeppniseftirlitið hafi mjög takmarkaðan tíma til þess að fjalla um mál að nýju. Ég bara fagna því þessari breytingu.

Að lokum er gerð tillaga um útvíkkun á heimildum Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna eða setja skilyrði fyrir honum. Það er í rauninni gert með því að bæta við orðinu „einkum“ í ákvæðið. Þannig felur það í sér aukið svigrúm til efnislegs mats á samkeppnislegum áhrifum samruna. Samruninn getur undir vissum kringumstæður raskað samkeppni þrátt fyrir að hann skapi ekki eða styrki markaðsráðandi stöðu eins eða fleiri fyrirtækja. Af þessu leiðir að ef samrunareglur heimila einungis inngrip í samruna sem styrkir eða myndar markaðsráðandi stöðu getur það leitt til þess að samkeppnishamlandi samrunar nái fram að ganga með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulífið og almenning.

Að lokum vil ég segja að það er margt jákvætt í þessu frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra. Samt er ljóst að það þarf að fara vel yfir þær breytingartillögur sem hér hafa komið fram. Mér heyrist að stjórnarliðar, þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar séu um margt ósammála um þær breytingar sem hér er verið að gera. En ég tel að hagsmunum neytenda verði betur gætt ef þetta frumvarp nær að fara í gegnum þingið.