135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[18:40]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp til laga um frístundabyggð. Eins og kom fram í lok máls hennar er þar um óeðlilega aðstöðu að ræða sem þarf að bregðast við. Mörgum kann að finnast sem réttindi landeigenda séu skert en ég tek undir með hæstv. félagsmálaráðherra, að það er fyrst og fremst verið að jafna aðstöðuna, annars vegar leigutaka í þessu tilviki og hins vegar landeigenda.

Skapast hafa vandamál vegna þess að óeðlilegar aðstæður voru á íslenskum markaði vegna mikillar verðhækkunar tímabundið, hugsanlega til frambúðar, á ýmsum lóðum undir frístundahús. Ýmsir hafa nýtt sér það til fullnustu til að aflað sér aukins fjár með því að selja þeim sem eiga frístundahús lóðir á yfirverði. Það er ljóst að við þessu varð að bregðast og það er að hluta gert í þessu frumvarpi.

Spurningin sem vaknar er um hvort hér sé um eðlileg lagaákvæði að ræða. Ljóst er að fólki hefur verið stillt upp við vegg. Skapast hafa óeðlilegar aðstæður og þær geta kallað á lagasetningu eins og þá sem hér er um að ræða. Vissulega er í frumvarpinu fólgin ákveðin skerðing á eignarrétti aðila en þá skiptir máli að það sé gert með almennum lögum sem þessum og þess sé gætt að reynt sé að fara bil beggja þannig að hagsmunir beggja, þ.e. eigenda frístundahúsa og landeigenda, séu tryggðir sem best má vera.

Um leið og ég mæli með að þetta frumvarp hljóti stuðning og verði að lögum sem allra fyrst þá eru nokkur atriði sem hljóta að koma til skoðunar og verða til umhugsunar, t..d. stærðarmörk, fjöldamörk og annað. Spurningin er um hvort tveir hektarar eigi að vera viðmiðunarmörk til að þessi lög gildi eða ekki, hvort kannski væri eðlilegra að miða við frístundahús, hvort eðlilegt sé að miða við sex lóðir undir frístundahús, af hverju ekki fimm eða sjö eða kannski bara eina? Einstaklingur sem hefur fengið leigða lóð fyrir frístundahús á sömu hagsmuna að gæta þótt húsið hans sé eitt í landinu eða þótt þar séu fimm eða sex önnur. Í raun er um sömu hagsmuni að ræða þótt ekki séu önnur frístundabyggð en eitt frístundahús. Mér finnst það koma til skoðunar við meðferð málsins í nefnd sem frumvarpinu verður vísað, að gæta að þessum ákvæðum.

Þá spyr ég einnig hvort það sé eðlilegt sem kveðið er á um í 3. mgr. 12. gr. varðandi heimild til að hækka einhliða leigusamning sem nemur allt að tvöfaldri fjárhæð ársleigu eldri leigusamnings. Þá finnst mér koma til greina og skoðunar sjónarmið um með hvaða hætti leigusamningurinn var upphaflega ákveðinn. Var í upphafi leigusamningsins um sjálfkrafa hækkun á honum að ræða með tilliti til vísitölu eða verðbótaákvæða. Í þeim tilvikum verður ekki séð að nein sanngirni sé fólgin í því að tvöfalda allt í einu leiguverð fyrir frístundahús. Það er miklu eðlilegra að vísitöluákvæðin haldi sér þá með sama hætti og þau hafa gert því annars væri um að ræða óeðlilega íþyngingu fyrir eiganda frístundahúss. Einhliða ákvörðun leigusala hvað þetta varðar er því óeðlileg.

Varðandi ákvæði í 13. gr. laganna, um innlausnarrétt, kemur líka til athugunar hvort það séu eðlilegar viðmiðanir að eigandi jarðar þurfi að bíða í tíu ár eftir að fá að beita innlausnarrétti. Spurningin er um hvort ekki megi breyta ákvæðum þessara laga og þá sérstaklega 12. og 13. gr. þannig að eigandi geti krafist innlausnar fyrr. Hér er miðað við að greitt sé fullt verð fyrir og þá væntanlega með tilliti til ákvæðis stjórnarskrár um það að ef ekki semst um verð kveði matsnefnd á um það með tilliti til sjónarmiða líkt og þegar um eignarnám er að ræða. Það ætti að tryggja hagsmuni eigenda frístundahúsa að notast við eðlilegar viðmiðanir varðandi verðákvarðanir. Þegar um slíkt er að ræða kann að vera eðlilegt að heimila landeiganda að krefjast innlausnar fljótt, jafnvel innan eins árs eða tveggja ára frá því að framlengdur leigusamningur tók gildi og létta á móti þeim ákvæðum sem kveðið er á um í 12. gr. varðandi skilmála fyrir framlengingu leigusamnings.

Þetta mál kemur að sjálfsögðu til skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um málið. Ég fer því að eins og hæstv. ráðherra og lýk tímans vegna máli mínu.