135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[18:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frumvarp sem ég þó fagna mjög að skuli vera komið fram og vil vitna í orð Ásgeirs Guðmundssonar, formanns Landssambands sumarbústaðaeigenda, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fagnar því að frumvarpið sé komið fram og segir það geysilega mikilvægt fyrir leigutaka að fá lagaramma í kringum frístundabyggðir og hann segir að þetta mál snerti hagsmuni tugi þúsunda manna á Íslandi.

Ég hef á því fullan skilning að eigendur íbúða geti þurft að biðja leigjendur að víkja úr húsnæði þegar þeir þurfa sjálfir á því að halda til eigin nota og slíkar aðstæður geta líka komið upp þar sem land hefur verið leigt undir sumarbústaði. Þá hef ég skilning á því að leigu þurfi endrum og eins að hækka í samræmi við verðlagsþróun eða einhverjar tilteknar aðstæður. Ekkert af þessu á þó við þær aðfarir sem hafa verið gegn sumarbústaðafólki víða í landinu undanfarna mánuði og ár. Fræg að endemum er framganga nokkurra landeigenda í Skorradal en þar hafa óprúttnir viðskiptamenn greinilega fest kaup á byggðu sumarbústaðalandi beinlínis með það fyrir augum að féfletta fólk í byggðunum. Eftir að þessir aðilar hafa komið til sögunnar hafa þeir stillt sumarbústaðafólki upp við vegg, því er boðið að kaupa landið undir sumarbústaðinn eða hafa sig á brott. Þess eru dæmi að fjölskyldu hafi verið gert að greiða 10, 15 millj. kr. fyrir fjórðung úr hektara. Það eru mörg dæmi þess að leigan hafi verið hækkuð í einu vetfangi um rúman helming.

Í langan tíma hefur verið beðið eftir lagasetningu til að verja fólk gegn ofbeldi af þessu tagi. Nú er komið fram frumvarp og ég endurtek að ég hygg að þetta sé ekki aðeins fagnaðarefni forsvarsmönnum sumarbústaðaeigenda heldur þeim tugum þúsunda sem Ásgeir Guðmundsson vitnar til og ég held að þetta sé líka fagnaðarefni öllu því strangheiðarlega fólki til sveita sem hefur atvinnu af því að leigja land undir orlofsbyggðir og veita íbúum þar þjónustu. Það sem ég vék að hér áðan og vísaði þar til nokkurra óprúttinna aðila í Skorradal og víðar hefur ekkert með atvinnurekstur að gera, það nálgast að flokkast undir glæpastarfsemi.

Síðan er spurning hvort nægilega langt er gengið í þessu frumvarpi. Ég spyr t.d. um dagsetningu. Frumvarpið á að taka gildi sem lög 1. september og ég spyr hvers vegna ekki er hægt að flýta þeirri dagsetningu. Ég spyr einnig um þær heimildir sem landeigendum eru veittar til að minnka landið undir sumarbústöðum, í sumum tilvikum niður í fjórðung úr hektara eða var það hálfur hektari, ég man ekki hvort. (Gripið fram í.) Fjórðungur úr hektara, (Gripið fram í.) er það hálfur hektari, hvort ekki sé gengið of langt í því efni.

Þetta eru atriði sem hreinlega þarf að fara yfir í félagsmálanefnd þegar hún fær frumvarpið til skoðunar. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það að sinni. Ég mun hlusta á þær athugasemdir sem félagsmálanefnd berast en hvet til þess að málinu verði hraðað sem nokkur kostur er í gegnum þingið og hvet til þess að við breytum dagsetningunni og færum hana fram á árið, ég nefni 1. maí í því sambandi.