135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[18:52]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nú eins og þeir sem hafa komið hér upp þakka og fagna þessu frumvarpi. Það tekur á mörgum atriðum sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur rakið ágætlega og því ekki ástæða til að gera það frekar. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að fagna því sérstaklega í ljósi þess að jarðalög breyttust mikið 2004 en þá varð réttarstaða leigutaka á sumarbústaðalandi miklum mun verri en áður hafði verið, þ.e. að frelsi með sölu og meðferð jarða var rýmkað mjög mikið og það var, held ég, alveg nauðsynlegt og hárrétt á sínum tíma en þetta þýddi auðvitað að þar með var komin allt önnur forsenda fyrir því í hvaða tilgangi jarðir voru seldar og það hafa verið rakin dæmi þess hér að m.a. hafi jarðir verið keyptar upp í þeim tilgangi að taka sérstaklega á þeim sem eiga og hafa átt sumarbústaði og lent í því að lóðarleigusamningur rennur út.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur rakið forsendurnar fyrir því sérstaklega, bæði lögfræðiálit sem hún lét vinna og eins dóm sem fallið hefur í Noregi þar sem aðstæður eru mjög svipaðar og hér og að því leytinu til hef ég trú á því að þetta frumvarp standist ákvæði stjórnarskrár og jafnræðisreglu. Megintilgangurinn með frumvarpinu er í rauninni að bæta samningsaðstöðu eða jafna samningsaðstöðu aðila. Jafnframt er tryggður ákveðinn réttur leigusala þar sem hann getur minnkað það land sem leigt er út, eins og áður hefur verið rakið, og jafnframt hefur hann heimild til þess að hækka leigu og allt að því tvöfalda hana.

Það er auðvitað alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni þegar hann spyr hvort það sé eðlilegt að hægt sé að hækka einhliða um helming, þ.e. að þessi lög líta ef til vill út fyrir að ýta undir að það verði allt að helmingshækkun þegar leigutími er útrunninn í staðinn fyrir að í þeim tilvikum, sem að öllu jöfnu hefur verið hingað til, að leiguverð hækkar einungis um eitthvað sem getur talist eðlilegt miðað við hækkun á vísitölu. Þetta er auðvitað eitthvað sem nefndin mun væntanlega fjalla um.

Það er svo sem líka rétt að það er spurning hvort innlausnarréttur ætti að geta tekið gildi fyrr en eftir tíu ár og það er svo sem alveg athugunarvert en í því tilviki fannst mér að það væri verið að gæta ákveðins meðalhófs í því en það má vel vera að frumvarpið tæki enn þá betur á því að jafna réttarstöðuna ef sá tími væri styttur.

Ég get líka vel tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni þegar hann segir að hann hafi skilning á því að landeigendur geti þurft að nota land sitt og geti þess vegna ekki lengt leigusamning en það eru auðvitað mörg dæmi þess að útrunninn leigusamningur hefur verið notaður til þess að þvinga fólk til þess að kaupa það land sem sumarbústaður stendur á, oft dýru verði, mjög dýru verði og einmitt í ljósi þess að í flestum tilvikum voru leigusamningar gerðir áður en jarðalög breyttust 2004 hefur þessi mismunur á stöðu aðila orðið til. Með þessu er því ekki verið að gera annað en að jafna þessa stöðu og tryggja rétt þeirra aðila sem hafa verið að rækta land. Það er oft á tíðum mjög tilfinningaþrungið að þurfa að láta frá sér land sem kannski fjölskyldan er búin að vera að rækta í 25, 50 ár, einn til tveir, jafnvel þrír ættliðir o.s.frv., það getur hver maður séð. Enda vitum við að þegar t.d. er gert eignarnám á leigulandi hjá sveitarfélögum, jafnvel þótt leigusamningur sé útrunninn, þá hefur það eignarnám í rauninni verið þannig að það hefur verið litið á að þarna sé um eign að ræða en ekki leigu og það hefur komið miklu meira inn í það mat en bara mat á þeim gróðri eða þeim húsum sem kunna að vera á landi. Það kemur líka inn í staðsetning lóðar o.fl. sem sýnir okkur í rauninni hvernig Hæstiréttur og dómar hafa litið á sterka stöðu þeirra sem búa eða eru með eignir á landinu.

Það er eitt sem hefur líka verið aðeins í umræðunni og ég held að hafi ekki farið inn í þetta frumvarp, það er staða Þingvalla. Ég held að það væri eðlilegt að nefndin tæki það mál til einhverrar skoðunar því að það auðvitað lýtur kannski einhverjum öðrum lögmálum en svona almennt séð. En ég undirstrika að það er mjög gott að þetta frumvarp er komið fram og ég fagna því sérstaklega.