135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[19:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem kannski fyrst og fremst upp til að þakka hæstv. ráðherra og taka undir sjónarmið hennar í meginatriðum en ég ítreka mikilvægi þess að við flýtum gildistöku laganna. Þessi lög hefðu þurft að vera komin til framkvæmda miklu fyrr. Hæstv ráðherra bendir réttilega á að þessi barátta hefur staðið um árabil en vandinn er sá að margir sumarbústaðaeigendur standa frammi fyrir hótunum núna. Ég held að ekki þurfi langan tíma til að kynna innihald laganna, sumarbústaðaeigendur eru með öflug samtök og þeir mundu án efa nýta þau til að kynna félagsmönnum sínum lögin. Og ég hef trú á því að þeir sem lögunum er ætlað að taka til muni fylgjast grannt með umræðunni hér á komandi vikum og verði vel með á nótunum, þannig að ég held að við þurfum ekki á löngum tíma að halda.

En til að verja hagsmuni einstaklinga og fjölskyldna sem verið er að stilla upp við vegg núna af fjárkúgurum, af mönnum sem hafa ekkert með hugtakið atvinnurekstur að gera heldur nánast glæpastarfsemi, þá þarf fólk á vernd að halda núna.