135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að undirbúningur að bættum samgöngum við Vestmannaeyjar með þrjá valkosti — nýjan Herjólf til Þorlákshafnar, göng milli lands og Eyja eða Bakkafjörudæmið með nýju skipi — var ekki faglega unninn. Eingöngu var unnið faglega við rannsóknir á Bakkafjöru, annað slugsaðist. Hitt liggur fyrir að ríkisstjórnin tók ákvörðun um það strax í upphafi ferils síns að byggja höfn á Bakkafjöru, Landeyjahöfn, og að því er unnið. Fyrri hluti útboðs er kominn út og von á seinni hlutanum.

Engu að síður stendur óklárt að ljúka þeim rannsóknarþætti sem átti eftir að gera á möguleikum jarðganga milli lands og Eyja svo að eitthvert vit, eitthvað heildstætt, væri í þeim rannsóknum. Nú liggja fyrir tilboð í þeim efnum sem hljóða alls upp á verkferli upp á 65 millj. kr. Áhugamenn um þetta mál munu fylgja því mjög fast eftir að því verði lokið, ekki síst í ljósi þess að forustumenn allra stjórnmálaflokka, nema Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna, lofuðu því fyrir síðustu kosningar í Suðurkjördæmi að beita sér mjög einarðlega fyrir því að þessum rannsóknum yrði lokið. Það er fullt svigrúm til þess í rannsóknarfjármagni sem liggur fyrir í landinu. Koma dagar, koma ráð og þeir sem hafa unnið mest í þessu vita að með hverjum deginum styttist í að göng komi milli lands og Eyja. En næsta skref í þessu, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar, er Landeyjahöfn með nýju skipi og það er verulega mikil bót miðað við það sem nú er, 20 mínútna siglingaleið.