135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:02]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Auðvitað er samgönguáætlun í gildi, það liggur fyrir. Það sem vakti athygli mína í þessari umræðu voru orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar: Besta leiðin í augnablikinu, sagði hv. þingmaður.

Það er eiginlega vítaverð hugsun. Við verðum alltaf að finna bestu leiðina horft til framtíðar. Það sem liggur auðvitað fyrir í þessu máli varðandi samgöngur til Vestmannaeyja er að Eyjamenn trúðu því að þeir ættu ríkisstjórn sem vildi standa með þeim. Alls höfðu 3.400 þeirra skorað á ríkisstjórnina að bera rækilega saman kostina jarðgöng og Bakkafjöruhöfn og taka síðan ákvörðun. Þeir veltu nýjum Herjólfi fyrir sér í þessu sambandi, það var slegið af.

Nú vantar 65 milljónir til að klára vísindin í kringum jarðgangagerð. Ægisdyr voru með mjög gott erindi í samgöngunefnd. Þeir tala enn um jarðgöng frá 20 milljörðum upp í 100, það fari eftir berglaginu og því öllu saman. Deilurnar halda því miður áfram. Það er mikilvægt fyrir þetta byggðarlag að ákvörðun liggi fyrir og samstaða náist um málið.

Ég tel auðvitað að búið sé að slá jarðgangagerðina af, hún er of dýr fyrir samtíðina og menn stefna á Bakkafjöruhöfn við þessar aðstæður. Menn í Vestmannaeyjum þurfa þá að ná sátt um það og einnig stjórnvöld. Samgönguráðherra Samfylkingarinnar sló jarðgöngin af á fyrstu dögum sínum í samgönguráðuneytinu. Það er mikilvægt fyrir byggðarlag eins og Vestmannaeyjar að menn komist að niðurstöðu, ákvörðun liggi fyrir og að ekki sé verið að deila um þessa kosti.