135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt þegar menn ræða kjarasamninga og kjaramál að hafa í huga að mikil verðbólga er á Íslandi um þessar mundir. Verðbólga á síðasta ári var um 8%. Hún mældist aðeins 5,9% vegna þess að ríkisstjórnin þáverandi greip til þess ráðs að greiða niður verðbólguna með því að lækka virðisaukaskatt á matvælum.

Það er mikilvægast við þessar aðstæður að lækka útgjaldahlið heimilanna. Það verður best gert með því að ná niður verðbólgunni. Það þarf að ná henni niður, koma á jafnvægi í efnahagsmálum og lækka vexti á Íslandi. Það er besta og mesta kjarabótin fyrir alla launþega á Íslandi. Það er ekki heppilegt við þessar aðstæður að ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins fari í kapphlaup um að tilgreina einhverjar stéttir sem eigi að fá meiri kauphækkanir en aðrar. Verkalýðshreyfingin ræður ekki við það í sínum röðum að gera kjarasamninga sem taka ákveðnar stéttir út úr og færa þeim meiri kauphækkanir, það eiga menn að vita. Menn eiga ekki að gera kjarasamninga torvelda með því að setja verkalýðshreyfinguna í þá stöðu.

Leiðin til að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega og lágtekjufólks umfram það sem felst í almennum kjarasamningum er í gegnum ríkissjóð, í gegnum skattkerfið. Besta leiðin er sú sem komið hefur fram hjá Alþýðusambandi Íslands um sérstakan persónuafslátt fyrir þá sem hafa lágar tekjur. Hún er best og hún er ódýrust og hún hjálpar mest til þess að ná niður verðbólgunni sem allir hagnast mest á.