135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:21]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. umhverfisráðherra um að þetta eru geysilega stór mál sem við fjöllum um í dag. Þetta eru grundvallarmál og þau hljóta að fá mikla vinnslu í nefndum þingsins. Það er tvennt sem ég tel að sé sérstaklega áhugavert að skoðað sé í þinginu. Það er varðandi meiri kynningu og samráð varðandi skipulagsmál í sveitarfélögunum. Við sjáum æ fleiri deilur spretta upp um skipulagsmál þannig að ég held að það sé mjög gott að efla samráðið þannig að íbúarnir viti hvað er í gangi og að ekki sé komið aftan að þeim.

Hitt stóra málið sem er í frumvarpinu er landsskipulagsáætlunin. Fram kom í ræðu hæstv. ráðherra að sveitarfélögin fara með skipulagsmál. Það er þessi almenna grundvallarregla sem gilt hefur um langt skeið í samfélaginu. Það kom líka fram, og ég er sammála ráðherra, að þörf er á að ríkið leggi inn landsskipulag með einhverri heildstæðri sýn en ég átta mig á að sveitarfélögin eru frekar treg að gefa mikið eftir af valdi sínu. Ég tel því ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji — miðað við að málið er nú búið að fá mikla vinnslu og skoðun í mörg ár eins og hér var rakið — hvort ráðherra á von á því að málið fari í gegn á þessu þingi af því að þetta eru grundvallaratriði. Hvað á ríkið að ganga langt í að koma skipulagi á, t.d. á hinni ósnortnu náttúru á miðhálendinu sem er okkur svo mikilvæg? Eru forsvarsmenn sveitarfélaga tilbúnir til að gefa eftir vald sem margir hverjir telja sig hafa? Er hæstv. ráðherra bjartsýn á að samstaða takist um málið eða ekki? Alla vega tel ég mjög mikilvægt að ríkið hafi svigrúm til að leggja til samþætta, heildstæða línu (Forseti hringir.) sem sveitarfélögin þurfa að fara eftir.