135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Já, hér er margt lagt til sem er til bóta svo sem að lýsa því sem er í undirbúningi, skipulagsáætlunum og líka svokölluðu rammaskipulagi. Allt stuðlar það að því að borgararnir geti betur kynnt sér það sem fram á að fara. Eins stuðlar það að því að við sitjum ekki uppi með ákvarðanir eða séum í þeirri stöðu að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hvað í bígerð er, hvaða hús eigi að reisa eða annað slíkt fyrr en framkvæmdir hefjast, eins og stundum vill brenna við.

Hvað varðar landsskipulagsáætlunina er ég algerlega sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að hún er mikið þjóðþrifamál. Þess vegna er hún lögð til í þessu frumvarpi. Landsskipulag er samræmingartæki. Ríkið býr til og stendur að mörgum áætlunum sem lagðar eru fram á þingi í þingsályktunartillögu. Samgönguáætlun er eitt slíkt dæmi. Náttúruverndaráætlun er annað slíkt dæmi. Það verður að vera þannig að meginlínurnar um landnýtingu og skipulag séu lagðar með allt landið undir, með almanna- og þjóðarhagsmuni í fókus og það á landsskipulagsáætlunin að gera. Mér er hins vegar fullkunnugt um að ekki eru allir sveitarstjórnarmenn, núverandi og fyrrverandi, sannfærðir um gildi þess og m.a. þess vegna lagði ég mig mjög fram um það í haust að eiga í viðræðum við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég á ekki endilega von á því að allir séu sáttir. Ég held hins vegar að með góðri umræðu hér og með því að fara vandlega ofan í saumana á málinu geti fulltrúar sveitarfélaganna séð að það eru líka hagsmunir þeirra að hafa landsskipulag (Forseti hringir.) til þess að samræma og til að gæta hinna stærri hagsmuna.