135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfisráðherra sem mælti fyrir frumvarpi til nýrra skipulagslaga fyrir framsögu hennar og þær upplýsingar sem komu fram í máli hennar umfram það sem lesa má í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.

Það er auðvitað satt og rétt sem þegar hefur komið fram að hér er um gríðarlega stórt mál að ræða, gríðarlega mikilvægan málaflokk sem snertir, vil ég leyfa mér að segja, alla landsmenn með einum eða öðrum hætti svo það sé nú sagt á þann hátt.

Skipulagsmálin koma við nánast alla. Þau varða fjölþætta starfsemi, atvinnustarfsemi í landinu, þau varða að sjálfsögðu uppbyggingu sveitarfélaganna, uppbyggingu íbúðahverfa og atvinnusvæða. Þau varða meðferð á landi, landnotkun, landi sem er í sjálfu sér auðlind. Þau varða þéttbýlissvæði, dreifbýlissvæði, hálendið o.s.frv. Þau ná til landsins alls og reyndar út í sjó. Hér er því mælt fyrir afskaplega þýðingarmiklu máli eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil láta þess getið og taka þar með undir með ráðherra að þetta er mál sem hefur verið lengi í vinnslu og má segja að hæstv. núverandi umhverfisráðherra sé sennilega fjórði umhverfisráðherrann sem kemur að því. Þetta fer að verða eins í umhverfisráðuneytinu og í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er skipt um svona eins og hendi sé veifað. (RR: Hvað var oft skipt um borgarstjóra á síðasta kjörtímabili 2002–2006?) Það er ekki endilega víst (Gripið fram í: Þrisvar.) að það verði svoleiðis áfram.

Það vill svo til að ég tók sæti í þeirri nefnd sem var á sínum tíma skipuð af hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, til að semja frumvarp til skipulagslaga. Ég var tilnefndur af hálfu Reykjavíkurborgar og var þá formaður skipulagsnefndar í Reykjavík. Tveir fulltrúar komu af sveitarstjórnarstiginu inn í þessa nefnd. Efnisatriði þess máls sem hér er til umfjöllunar er mér því nokkuð vel kunnugt og frumvarpið í sjálfu sér, enda þótt nú sé nokkuð um liðið síðan nefndin skilaði af sér tillögum til þáverandi ráðherra og hafa a.m.k. tveir ráðherrar tekið þá vinnu til skoðunar á sínum vegum og vafalaust gert á því einhverjar breytingar. Ég geri mér ekki að fullu grein fyrir því hvaða breytingar hafa orðið á frumvarpinu frá því að mælt var fyrir því síðast og svo þar áður, hvaða breytingar urðu frá því að nefndin skilaði af sér. Það eru hins vegar upplýsingar sem hægt er að kalla fram í meðförum nefndarinnar við yfirferð, að fá upplýsingar og yfirlit yfir það hvaða breytingum það hefur tekið í vinnslunni og getur verið áhugavert að kynna sér það og þau sjónarmið sem þar hafa komið fram.

Ég ætla að segja það strax í upphafi að ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram horfi mjög til bóta í skipulagsmálunum og setji nýja og betri umgjörð utan um skipulagsmálin í heild sinni. Það er afstaða sem við munum láta koma fram, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í umhverfisnefnd, þegar málið kemur þangað til umfjöllunar.

Það breytir að sjálfsögðu ekki því að það er fullt af atriðum í svona umfangsmiklu máli sem huga þarf að og við höfum auðvitað ýmsar skoðanir á tilteknum atriðum sem við mundum gjarnan vilja sjá fyrirkomið með öðrum hætti. Svo er augljóst að það mun þurfa að leita umsagna um frumvarpið mjög víða í samfélaginu og að sjálfsögðu þarf að taka afstöðu til og fara yfir þær athugasemdir og sjónarmið sem kunna að koma fram í því ferli. Vitaskuld verður maður að hafa allan þann fyrirvara sem eðlilegt er hvað varðar þá afstöðu endanlega þegar málið er til meðferðar.

Ég vil líka ítreka það að hér er um svo mikilvægt mál að ræða og flókið að eðlilegt er að þingið taki góðan tíma til að fjalla um það. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að málið hefði fengið vandlega umfjöllun í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það er vafalaust rétt. Það á hins vegar ekki við um þingflokka stjórnarandstöðunnar sem eru að sjálfsögðu að sjá málið fyrst núna þegar það kemur inn í þessum búningi en ég tel mig hafa vissu fyrir því að umhverfisnefnd muni taka góðan tíma og fara vandlega yfir frumvarpið. Það er engin sérstök ástæða til að tefja það í sjálfu sér en hins vegar heldur engin ástæða til að hrapa að því að ljúka málinu í nefnd, því að það er það viðamikið og miklir hagsmunir í húfi fyrir marga aðila. Það skiptir mestu máli fyrir alla að vandað sé til verka og sérstaklega þegar um svona mál er að ræða og þar sem mér býður í grun að það sé almennt nokkuð góð samstaða um að stíga þau meginskref sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þá er þeim mun meiri ástæða til að reyna að leita að sem allra breiðustu samstöðu um endanlega útkomu.

Ég vil nefna nokkur atriði í þessu sambandi. Ég er mjög ánægður með þá áherslu sem er í frumvarpinu á þætti eins og sjálfbæra þróun. Það er beinlínis sett inn í markmiðsgrein frumvarpsins í 1. gr. „að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi“, eins og þar segir, með leyfi forseta.

Þetta er að sjálfsögðu fyrst og fremst tilvísun í hina almennu stefnumörkun hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og ég tel mjög jákvætt að því sé haldið vel til haga þarna og þetta er reyndar gegnumgangandi stef í öllu frumvarpinu.

Hér var minnst á að frumvarpið gerði ráð fyrir aukinni og betri kynningu og meira samráði. Við þekkjum það öll sem höfum fengist við sveitarstjórnarmál og skipulagsmál í sveitarfélögum að þetta er málaflokkur sem fær æ aukið vægi í öllu starfi á sveitarstjórnarstigi og almenningur lætur sig skipulagsmálin sífellt miklu meira varða og er meðvitaðri um rétt sinn líka til þess að hafa áhrif á þróun og til þess að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi og skipulag. Það er í sjálfu sér jákvætt. Það þarf líka að tryggja að allir ferlar séu skýrir og öllum sé ljóst hvaða rétt þeir hafa og hvernig þeir geta komið að skipulagsmálum.

Vanda á gerð skipulagsins, m.a. með lýsingu á skipulagsverkefnum fyrir fram. Þetta tel ég líka mjög til bóta vegna þess að það á þá að vera öllum ljóst í upphafi þegar ráðist er í skipulagsvinnu til hvers er ætlast af henni og hvert hún á að leiða og hver markmiðin eru. Það er mjög mikilvægt. Það hefur margoft komið í ljós að skort hefur á að það sé alveg skýrt hvert menn eru að fara og hver tilgangurinn er með skipulagsvinnu, hvort sem það er deiliskipulag eða skipulag á stærri skala.

Ég ætla líka að fagna því, og vísa þá til þess af því að ég held að það hafi komið aðeins fram í ræðu ráðherrans, ef ég hef tekið rétt eftir, sem lýtur að heimildum manna til að vinna skipulag. Við höfum margoft orðið vitni að því vítt og breitt um landið að aðilar, sem eru ýmist landeigendur eða framkvæmdaaðilar, koma með tilbúið unnið skipulag og leggja það fyrir sveitarstjórnina og segja: Viljið þið ekki bara samþykkja þetta sisvona? Ef sveitarstjórnin er með eitthvert múður og vill ekki gera nákvæmlega eins og framkvæmdaaðilar segja, þá fær maður að heyra það að lagðar hafi verið svo og svo margar milljónir í verkefnið og allt sé bara í uppnámi ef það nái ekki fram að ganga o.s.frv. Og ef á að fara að hlusta mikið á íbúana þá sé það ekki nógu gott.

Hér er í raun tekið á þessu. Það er m.a. gert í 38. gr. þar sem ákvæðunum er breytt varðandi heimildir þriðja aðila til að vinna deiliskipulag. Það þarf að gerast með samþykki sveitarstjórnar og þannig að það liggi jafnframt fyrir lýsing á því skipulagsverki fyrir fram. Þetta tel ég mjög til bóta og bæta réttarstöðu alls almennings þannig að hann standi ekki frammi fyrir einhvern veginn gerðum hlut og styrkir stöðu sveitarstjórnanna í þessu samhengi.

Við 1. umr. er gert ráð fyrir að menn fari almennt yfir sviðið og ekki er tími til að fara djúpt í einstök efnisatriði. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að fara betur yfir í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er það landsskipulagið sem hér hefur þegar verið vakið máls á. Ég tel mjög mikilvægt að við reynum að ná sátt um það hvernig landsskipulagshugsunin verður á endanum í lögunum. Ég get alveg staðfest það sem hæstv. umhverfisráðherra segir að auðvitað eru ekki allir ánægðir með þær formúleringar og þá hugsun sem er í sambandi við landsskipulagið. Ég er sjálfur almennt þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að vera með einhverja heildarstefnumörkun í þessu sambandi en ég vil að minnsta kosti skoða betur hvort það á beinlínis að vera skipulagsáætlun í þeim skilningi sem skipulagslögin gera ráð fyrir, eins og að því er varðar svæðisskipulagsáætlun, deiliskipulagsáætlun, aðalskipulagsáætlun, eða hvort hér á að vera um stefnumótun að ræða, þ.e. landsskipulagsstefnu sem er þá t.d. höfð til hliðsjónar og menn mega ekki beinlínis fara í bága við. En það er mjög flókið mál og vandmeðfarið, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti máls á í andsvari, hvað svona landsskipulagsstefna á að ná langt niður, því að í raun getur hún, ef hún er mjög ákveðin í formúleringum sínum, haft áhrif alveg niður á deiliskipulagsstig.

Svo maður tali bara íslensku í þessu samhengi, þá er alveg augljóst hvaða mál koma hér upp í hugann þar sem getur orðið ágreiningur eða hagsmunir geta skollið saman milli sveitarstjórnar og hins opinbera. Hér má t.d. nefna væntanlega flugvöll í Vatnsmýri þar sem samgönguráðherra getur komið með samgönguáætlun sem segir eitt á meðan sveitarstjórnin sem fer með skipulagsvaldið segir annað. Við getum tekið hálendið þar sem náttúruverndaráætlun getur sagt eitt, orkunýtingaráætlun getur sagt annað og svo kemur kannski sveitarfélagið og hefur einhverja allt aðra skoðun.

Þarna stöndum við frammi fyrir því að taka ákvörðun um það hvað á að ráða í svona ágreiningsmálum. Á ríkið að taka af skarið? Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að ef svo ríkir almannahagsmunir eru í húfi að ríkið verði að grípa inn, þá eigi það að gerast að með lagasetningu en skipulagsvaldið eigi að vera hjá sveitarfélögunum. Við vitum að alltaf er hægt að beita lagasetningu þegar svo ríkir almannahagsmunir eru í veði að það er óhjákvæmilegt og þá er það gert með þeirri umræðu sem það kallar á og það er eðlileg málsmeðferð að mínum dómi. En hér er alla vega ljóst að það þarf að fara betur yfir þetta og athuga hvort hægt er að finna þarna einhverjar lendingar sem góð sátt getur orðið um.

Ég fagna ákvæðinu um rammaskipulag. Það hefur skort á það að mínum dómi í skipulagslögin að það hefði einhvers konar umfjöllun. Ég ætla líka að nefna hérna atriði eins og skipulagsgjaldið sem gert er ráð fyrir að sé innheimt og renni í ríkissjóð. Ég mundi vilja að það yrði skoðað betur í nefndinni hvort það sé rétt fyrirkomulag að skipulagsgjaldið renni í ríkissjóð eða hvort það renni beinlínis til þess að standa straum af þeirri skipulagsvinnu sem sveitarfélögin inna af hendi. Í dag er það þannig að sveitarfélögin geta fengið hluta af skipulagsgjaldinu til sín með tvennum hætti en það er spurning hvort þetta á að vera beinlínis markaður tekjustofn til að standa straum af skipulagsvinnu sveitarfélaganna. Það er hlutur sem ég mundi vilja láta skoða betur.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna úrskurðarnefndina, af því að ég sé að forstjóri Skipulagsstofnunar situr hér í hliðarsal og átti sæti með mér í þessari nefnd, en ég held að ég hafi sagt á hverjum einasta nefndarfundi í nefndinni: Að lokum legg ég til að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði lögð niður. En ákvæði um hana eru nú samt sem áður í þessu frumvarpi. Úrskurðarnefndir og kærunefndir af þessum toga eru mér mjög mikill þyrnir í augum. Ég held að úrskurðar- og kærunefndir af ýmsum toga séu á sjöunda tuginn hjá ríkinu um þessar mundir. Hér var sem sagt ekki farin sú leið að gera breytingu á þessu en ég mun að sjálfsögðu taka það mál, skemmtiefni, til umfjöllunar í nefndinni.

Loks, af því að tíminn er að renna út, frú forseti, ætla ég að nefna, og ég get komið að því betur á eftir í umræðunni um frumvarp um mannvirki, að ég hef verulegar efasemdir eins og ég hafði í nefndinni á því að skipta skipulags- og byggingarlögunum upp í tvennt. Ég hefði viljað sjá skipulags- og mannvirkjalög sem einn lagabálk og þess vegna Skipulagsstofnun, Byggingarstofnun og brunamálin í (Forseti hringir.) einni stofnun frekar en tveimur en það er mál sem ég ætla að fjalla aðeins betur um á eftir.

Virðulegi forseti. Í heildina litið líst okkur prýðilega á (Forseti hringir.) það frumvarp sem hér er lagt fram og munum vinna að framgangi þess með þeim athugasemdum og breytingartillögum sem við áskiljum okkur rétt til.