135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Efnahags-, atvinnu- og kjaramál eru að sjálfsögðu stöðugt viðfangsefni á vettvangi ríkisstjórnarinnar sem og á Alþingi. Þau mál eru sérstaklega viðkvæm og vandmeðfarin þegar stutt er í kjarasamninga eins og vonir standa til að sé núna þessa dagana. Samningsaðilar á vinnumarkaðinum virðast vera langt komnir, að minnsta kosti sá hluti þeirra sem hefur staðið í viðræðum upp á síðkastið og allir hljóta að vona að þær viðræður megi leiða til farsælla lykta. Ríkisstjórnin, eins og ég hef margsagt úr þessum ræðustól og víðar, mun ekki skorast undan því að ræða við aðila vinnumarkaðarins um það með hvaða hætti hún geti komið að málum og lagt gott til. Þetta hefur legið fyrir í langan tíma og ég á von á því að á allra næstu dögum munum við ræða við samningsaðilana um það með hvaða hætti ríkisstjórnin og Alþingi, ef lagabreytinga er þörf, getur komið að þessum málum.

Það vill þannig til að efnahagsstaðan á Íslandi er býsna sterk og hefur verið. Ég ætla ekki að rifja upp allt sem sagt hefur verið úr þessum ræðustól um það efni. Hv. þm. Guðni Ágústsson sagði hér í gær réttilega að staða ríkissjóðs væri gríðarlega sterk og lífeyrissjóðakerfið sömuleiðis. Þetta viðurkenna allir sanngjarnir menn innan lands jafnt sem utan sem um þessi mál fjalla og hafa einhvern áhuga á því að leiða sannleikann í ljós. Hins vegar hafa efnahagsmálin að undanförnu markast af því að það hefur skapast óeðlilegt ástand á lánamörkuðum í útlöndum. Það hefur myndast lánsfjárskortur á alþjóðafjármálamörkuðum sem vitaskuld hefur haft sitt að segja á Íslandi og kemur fram í því að íslensku bankarnir eiga ekki jafngreiðan aðgang að ódýru lánsfé og þeir áður áttu. Þess vegna hafa þeir verið að grípa til varúðarráðstafana í sambandi við útlán og það mun segja til sín fyrr en varir. Þessar aðstæður voru ófyrirséðar fyrir nokkrum vikum og mánuðum síðan. En við þurfum að sjálfsögðu að bregðast við þeim eins og allir aðrir af skynsemi en höfum til þess sem ríki að ýmsu leyti betri aðstæður en margir aðrir vegna þeirra aðstæðna sem ég gat um varðandi sterka stöðu ríkissjóðs og fleira. Þannig standa þessi mál í augnablikinu hvað þessa þætti varðar.

Hv. þingmaður spurði um margt. Hann spurði meðal annars um væntanlegar framkvæmdir og um mótvægisaðgerðir og fleira í þeim dúr. Þess er ekki langt að minnast að ríkisstjórnin var gagnrýnd fyrir það hér við fjárlagaafgreiðslu að það væri verið að auka opinber fjárútlát og fjárveitingar til framkvæmda. Nú er að koma á daginn alveg eins og við spáðum í aðdraganda fjárlagagerðar og fyrir jólin að það gæti farið svo að það yrði full þörf á þeim opinberu framkvæmdum ekki síst í vegamálum sem var verið að bæta inn í fjárlagafrumvarpið. Og það er nákvæmlega það sem er að gerast. Það má vel vera að það þurfi að gera enn betur og enn meira í þeim efnum þegar líða tekur á árið. Við útilokum ekki að svo kunni að fara ef það hægist um of á hjólum efnahagslífsins í landinu.

Varðandi mótvægisaðgerðir voru þær að sjálfsögðu hugsaðar til að koma til móts við þær byggðir og þá aðila í landinu sem yrðu fyrir búsifjum vegna þriðjungsskerðingar þorskaflamarksins. Enn hafa þær ráðstafanir ekki skilað sér að neinu marki í skráðu atvinnuleysi í landinu þannig að það er ekki farið á það að reyna með hvaða hætti sú skerðing birtist í atvinnuleysistölunum en við höfum undirbúið mótvægisaðgerðirnar. Þær eru að fara að skila sér og þær munu koma til framkvæmda að miklu leyti á þessu ári. En við höfum jafnframt sagt að við séum undir það búin í ríkisstjórninni að endurskoða þær, fara yfir þær sem búið er að ákveða með það fyrir augum að athuga hvort ætti kannski að bæta einhvers staðar í. Málið er ekki komið það langt að um slíkt hafi verið teknar ákvarðanir. En ég legg áherslu á að í aðdraganda kjarasamninga verði allir að tala varlegar en hitt.