135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:15]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti.

Óðum rýrnar auraforðinn,

endurvakin liðin saga.

Verðbólgan er aftur orðin

eins og hún var í gamla daga.

Þannig orti jafnaðarmaðurinn Kristján Bersi Ólafsson á dögunum um ríkisstjórn sem hann sjálfsagt styður. Verðbólgan er stóra vandamálið í dag. Það verður mjög hættulegt fyrir íslenskt launafólk ef hér hefjast víxlhækkanir á verðlagi og launum. Verðbólgudraugurinn er stærsta vandamál ríkisstjórnarinnar og hún hefur ekki tekið á honum. Hún hefur ekkert aðhafst í efnahagsmálum og þess vegna eru allir kjarasamningar sem eru á borðinu í mikilli óvissu. Það er ábyrgðarlaust, eins og hér hefur verið hjá stjórnarliðum og jafnvel hæstv. ráðherrum, að ganga fram við þessar aðstæður í íslensku samfélagi og bjóða einni stétt kauphækkun í dag og annarri á morgun. Stóra málið og eina málið sem ríkisstjórnin glímir við er verðbólgan, þar verður hún að vakna.

Það er ískyggilegt ástand sem nú vofir yfir Íslandi og kemur að utan. Illa er spáð fyrir íslensku efnahagskerfi. Ef það skellur á okkur fer illa fyrir þjóðinni um sinn. Ég man efnahagsástandið 1991–1995 þegar íhaldið og kratarnir voru í stjórn. Ég man atvinnuleysið, ég man gjaldþrotin. Ég á mér bara einn draum, að ríkisstjórnin vakni og takist á með atvinnulífið við hlið á sér, Seðlabankann og allt það viðdráttarlið sem til er í landinu að reyna að vinna bug á þeim vanda sem steðjar að íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Við þurfum að ná snertilendingu, við þurfum að ná verðbólgunni (Forseti hringir.) niður sem er allt of há, hún er þjófur í veskjum launþega í dag. (Forseti hringir.) Það er eina og stærsta verkefnið en gangi svo hæstv. ríkisstjórn vel að ljúka kjarasamningum. Það er líka mikið mál.