135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:18]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu síðasta hv. þm. Guðna Ágústssonar. Verðbólgan er sá vandi sem ríkisstjórnin á fyrst og fremst að vera að glíma við. Verðbólgan var á síðasta ári 5,9% eftir að þáverandi ríkisstjórn hafði greitt hana niður með lækkun virðisaukaskatts af matvælum um 2%, þannig að í raun var verðbólga á síðasta ári um 8%. Við höfum ekki séð svona tölur síðan eftir 1990.

Nú er fyrir okkur spáð, eins og t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að hér geti orðið hörð lending, að gengið geti fallið mjög mikið á mjög skömmum tíma. Við erum á þeirri bjargbrún um þessar mundir að gengið riðar til falls. Þá mun verðbólgan fara upp og verða ekki bara 5,9% eða 8%, hún fer vel yfir 10%. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að haga efnahagsmálum á þann veg að það gerist ekki. Það er mikilvægasta framlag hverrar ríkisstjórnar til kjarasamninga að ná niður þessum kostnaði sem er orðinn stærsti útgjaldaliður í hverri fjölskyldu, fjármagnskostnaðurinn, verðtrygging og vextir.

Vextir hafa verið háir hér í fjögur ár en engu að síður er verðbólgan há. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki gripið til þeirra aðgerða sem þarf til að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Það á að vera framlag ríkisstjórnarinnar að koma verðbólgunni niður fyrir 5% strax. Það er verkefnið, virðulegi forseti.