135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:20]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Full ástæða er, eins og frummælandi, upphafsmaður umræðunnar, vakti athygli á, til að taka vísbendingar um hættu á samdrætti í hagkerfinu alvarlega. Fyrir hagkerfi eins og okkar sem reisir sig á tiltölulega fáum stoðum er það mjög alvarlegt mál þegar á sama tíma og skera þarf niður í sjávarútveginum sæki lausafjárkreppa að fjármálageiranum. Þegar síðan við bætist að við erum með háa vexti og gengið er að gefa eftir þá eru býsna mörg óveðursský að hrannast upp.

Það er einmitt á þeim tíma sem við stöndum frammi fyrir því að samningar eru lausir á vinnumarkaði. Þeir samningar sem nú er verið að vinna að eru því gerðir við afar viðkvæmar aðstæður og það var skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að láta á það reyna með hvaða hætti samningar tækjust á vinnumarkaði áður en kemur að aðild hennar. Þeir sem eru að kalla eftir svörum um það með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að koma að málum hafa fengið skýr svör um að þær aðgerðir muni miða að því að stuðla að efnahagslegu jafnvægi. Það er stóra verkefnið sem við stöndum nú frammi fyrir og það er ljóst af þeim fréttum sem berast af þeim samningum sem nú standa yfir að þeir aðilar sem þar eru að semja skynja mikilvægi þess að menn fari ekki fram úr sér með væntingar við gerð samninganna.

Verkefnið sem blasir við okkur núna er að ná niður vöxtum, skapa hér skilyrði til þess að lækka stýrivexti Seðlabankans án þess að verðbólgan fari aftur af stað. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir alla í landinu, bæði atvinnulífið og einstaklingana. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin mun grípa til í tengslum við þessi mál munu að sjálfsögðu miða að þessu markmiði en það hjálpar (Forseti hringir.) gríðarlega mikið til að hafa byggt upp forðann á undanförnum árum til þess að grípa inn í ef á þarf að halda.