135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég átti nú kannski ekki von á mjög greinargóðum útskýringum frá hæstv. forsætisráðherra um það í hvaða vegferð hann vildi leggja. Ég átti þó frekar von á því að svör hans yrðu nokkuð skýrari en þau voru. Ég hefði t.d. viljað heyra hjá hæstv. forsætisráðherra hvað hann og ríkisstjórnin hygðust fyrir hvað varðar stefnu í vaxtamálum, barnabótum, kjörum aldraðra. Þetta eru allt málefni sem tengjast kjarasamningunum en hafa einnig, ef ég man rétt, tengst málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar.

Engin svör komu heldur við því sem ég spurði um, sem skiptir fólk á landsbyggðinni vissulega mjög miklu máli, sem er húshitunarkostnaður og flutningskostnaður. Þá lít ég sérstaklega til þess að landsbyggðin og landsbyggðarfólkið verður fyrir alveg sérstökum kjaraskerðingum vegna niðurskurðar á þorskaflanum, það bitnar á þeim svæðum sérstaklega.

Ég tek hins vegar undir þá stefnu sem virðist vera í kjarasamningunum að ná fram sérkjarabót fyrir láglaunafólk. Við höfum mælt sérstaklega fyrir því í Frjálslynda flokknum í umræðum hér á Alþingi í haust, bæði í sambandi við gerð fjárlaga og einnig þegar við mæltum fyrir tillögum okkar í skattamálum, sérstökum persónuafslætti sem kæmi láglaunafólki sérstaklega til góða.

Það er auðvitað niðurstaðan að hér eru menn í viðkvæmri stöðu og segja ákaflega lítið. Ég vildi samt mælast til þess við hæstv. forsætisráðherra að hann talaði örlítið skýrar í lokaræðu sinni.