135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Upp á síðkastið hefur talsvert borið á því í fréttum að fjallað er um vinnubrögð kjörinna fulltrúa, um það hvernig fulltrúar fólksins rækja vald sitt og skyldur sinar. Mikið er talað um umboð og umboðsleysi, leynimakk, sukk og jafnvel spillingu og óábyrga meðferð skattpeninga borgaranna.

Stjórnmálamönnum er mikið í mun að láta verkin tala eins og við vitum. Auðvitað stendur ekki á mér að hafa skilning á því. En í þeim efnum verða menn þó sjá fótum sínum forráð og gæta þess að halda sig innan ramma hófsemdar og velsæmis en ekki síst laga og reglna.

Þess hefur gætt í auknum mæli í seinni tíð að stjórnmálamenn sem komast í valdastöður, t.d. þeir sem setjast á ráðherrabekki hér, sjáist ekki fyrir og taki í verkum sínum að beita aðferðum sem hingað til hafa frekar tilheyrt viðskiptalífinu og einkamarkaðnum en opinberri stjórnsýslu. Þannig eru ráðherrar farnir að leysa með samningum ýmis þau úrlausnarefni sem hingað til hafa verið viðfangsefni hefðbundinna stjórnvaldsákvarðana eða átt undir reglur sem stjórnvöld hafa sett á grundvelli laga.

Stundum gera menn þetta bara sisvona út í bláinn án þess að samningar eða fjárútlát þeim tengd eigi sér stoð í lögum. Svo leita menn fjárheimildanna eftir á í fjárlögum eða í fjáraukalögum en stundum er um að ræða verkefni sem fyrirmæli eru um í lögum. Með öðrum orðum, lögbundin verkefni sem ráðherrar hefðu hvort er eð þurft að rækja án allra samninga þar um.

Þótt ýmislegt sé á reiki hjá blessuðum ráðherrunum varðandi þetta verklag þeirra þá er eitt sem þeir klikka aldrei á. Þeir kalla ævinlega til fjölmiðla. (Iðnrh.: Ekki iðnaðarráðherra.) Ekki iðnaðarráðherra, segir hæstv. iðnaðarráðherra. Við eigum eftir að sjá það þegar lengra líður á valdatímann. En undirritun samninganna, yfirlýsinganna og fyrirheitanna er ævinlega mynduð í bak og fyrir. Það eru sendar út fréttatilkynningar og helst boðið upp á léttar veitingar á eftir.

Hæstv. forseti. Þetta hét í mínu ungdæmi að slá sig til riddara og það hafa ráðherrarnir verið einstaklega duglegir við, ekki síst í aðdraganda kosninga til Alþingis, eins og kemur fram í skýrslu á þingskjali 593 sem dreift var hér í þingsal í gær og ég hvet menn til lesa. Þetta er yfirlit yfir kosningavíxlana sem hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn skildi eftir sig þegar hún fór frá á vordögum.

Hér kemur í ljós að ráðherrar þessarar fráfarandi ríkisstjórnar undirrituðu samninga um verkefni sem útheimtu fjárútlát upp á 14 milljarða kr. á síðustu vikum valdatíma síns. Sumt af þeim verkefnum er örugglega bundið í lög og þar af leiðandi er fullkomlega ónauðsynlegt að gera um þau einhverja samninga. Nánari yfirferð yfir þá skýrslu verður að bíða betri tíma.

Hæstv. forseti. Umboðsmaður Alþingis gerir þessi breyttu vinnubrögð ráðherranna að umræðuefni í nýjustu skýrslu sinni til okkar og rædd var hér á haustþingi. Samkvæmt áliti umboðsmanns fer þessi þróun í vinnubrögðum ekki alltaf saman við gildandi reglur um meðferð mála í stjórnsýslunni.

Í áliti umboðsmanns er lýst áhyggjum af þeim samningum sem engin skýr lagafyrirmæli eru um og einnig af samningum um verkefni sem lög gera hvort eð er ráð fyrir að stjórnvaldið framkvæmi. Þá kemur einnig fram í áliti umboðsmanns að samningar sem stjórnvöld gera við borgarana, t.d. í þeim tilfellum þar sem lög mæla skýrt fyrir um bótaferli, svo dæmi sé nefnt, virðast ráðamenn eiga það til að semja sig frá þeim lagafyrirmælum. Ef einstaklingarnir sem í hlut eiga fara ekki í mál við ríkið til að heimta sinn rétt þá sleppa stjórnvöld með skrekkinn og samninginn upp á vasann.

Hæstv. forseti. Rammafjárlögin sem hér hafa verið innleidd kunna að ýta undir sið af þessu tagi. Einstaka ákvarðanir um fjárútlát eru þá iðulega í höndum ráðherranna en ekki hjá Alþingi. Ráðherrarnir hafa samkvæmt rammafjárlögum meira svigrúm en um leið er aðkoma Alþingis skert. Í skýrslu sinni getur umboðsmaður um það hvernig stjórnvöld fela í æ ríkari mæli verktökum eða fyrirtækjum úti í bæ að sinna lögboðnum verkefnum og reifa þau álitamál er varða réttarstöðu borgaranna gagnvart slíkum samningum. Hún breytist um leið og einkaaðilar eru farnir að taka stjórnvaldsákvarðanir eða hvernig beita á stjórnsýslu og upplýsingalögum og hvað verður um bótaskyldu eða þagnarskyldu og aðra slíka þætti. Samningar af þessu tagi eru orðnir býsna algengir t.d. í heilbrigðisþjónustunni.

Umboðsmaður Alþingis bendir á í þessu sambandi að samningar séu leið viðskiptalífsins og hins frjálsa markaðar þar sem byggt er á því að samningar hafi að geyma sameiginlega niðurstöðu tveggja eða fleiri aðila þar sem jafnræði ríkir á milli samningsaðila. Þar sem menn hafa val um meginþætti samningsins, þar sem samkeppnissjónarmið og aðhald markaðarins yrði virt. Það vilji hins vegar gleymast í samningum ráðherranna að verkefni hins opinbera hvíli almennt á allt öðrum réttargrundvelli en einkarekstur byggir á.

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra um það hvernig hann vilji bregðast við þessari þróun sem fer ekki alltaf saman við gildandi réttarreglur um meðferð mála í stjórnsýslunni.