135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:44]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að segja að kaflinn í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis sem fjallar um þetta mál sem við ræðum hér, vakti mig mjög til umhugsunar. Hann er á blaðsíðu 23–30 í skýrslunni. Við sem höfum verið í pólitíkinni um nokkurt skeið höfum auðvitað mörg hver gert samninga og staðið að þeim, gengið inn í þann menningarheim sem þar er og kannski ekki spurt okkur ákveðinna grundvallarspurninga á sama tíma. Þegar maður les hugleiðingar umboðsmanns Alþingis fer maður að líta málið svolítið öðrum augum, t.d. þegar hann dregur fram ýmis álitamál í sambandi við samninga.

Hann dregur fram álitamál eins og þetta: Er eðlilegt að ríkisvaldið geri samninga við grasrótarsamtök eða einkaaðila um ýmis verkefni sem má færa rök fyrir að séu lögbundin verkefni? Svo ræðst það jafnvel af samningnum hvernig þjónustan er sem viðkomandi fær þótt hennar sé getið í lögum. Réttarstaða borgarans verður því óljós.

Hann dregur líka fram að réttarstaðan verður óljós fyrir eftirlitsstofnanir og það er erfitt fyrir umboðsmann sjálfan að hafa eftirlit með því að þjónustan sé veitt á réttlátum grundvelli. Ég verð því að segja að vangaveltur umboðsmanns eru fyllilega þess virði að við förum betur yfir þetta. Ég heyri á hæstv. forsætisráðherra að hann tekur undir það að vissu leyti. Það er ekki eðlilegt hvernig þessi mál hafa þróast. (Forseti hringir.) Ég viðurkenni það þótt ég hafi sjálf gert marga samninga.