135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að full þörf sé á henni. Ég held að það sé óþarflega einfalt, eins og hæstv. forsætisráðherra afgreiddi málið, að vitna í að það eigi að fara að lögum og þar með sé málið afgreitt.

Við vitum vel að á þessu hefur verið stórfelldur misbrestur. Hér er á ferðinni sú viðleitni eða ásælni framkvæmdarvaldsins sem birtist okkur í ýmsum myndum, m.a. að túlka heimildir sínar rúmt, fara frjálslega með það umboð sem framkvæmdarvaldið hefur frá Alþingi, t.d. í gegnum heimildargreinar. Svo eru pólitísk markmið að baki sem lýsa sér í áhuga tiltekinna stjórnmálaafla á að úthýsa og einkavæða eins og frekast er kostur og ganga stundum það langt að það er beinlínis í ósamræmi við lög og reglur í hinni opinberu stjórnsýslu. Um það höfum við mörg dæmi.

Enginn hefur þorað að nefna hér Grímseyjarferju eða byggingu tónlistarhúss á grundvelli heimildargreina. Enginn hefur nefnt framsal á vatnsréttindum í neðri hluta Þjórsár án nokkurrar stoðar í lögum. Það er ekki einu sinni í skýrslunni um samningana af því að ráðuneytin hafa sjálfsagt ekki talið sig afhenda neitt. Ella hefði sá samningur átt að koma hér inn, gerður rétt fyrir kosningar.

Kosningavíxlarnir eru hluti af þessu og sú hefð sem komist hefur á að túlka heimildir 6. gr. fjárlaga þannig að menn megi gera svo til hvað sem er. Ef minni háttar heimild er komin inn til að ráðstafa eignum upp í eitthvert verkefni telst Alþingi búið að framselja vald til að skuldbinda hið opinbera jafnvel um tugi milljarða. Auðvitað er það ótæk stjórnsýsla og á ekki að reyna að mæla slíku bót.

Ég held að þetta eigi að gefa okkur tilefni til að fara ofan í saumana á aðferðafræði og vinnubrögðum í þessum efnum. (Forseti hringir.) Munum að það skiptir máli, að fjárreiðulög, upplýsinga- og stjórnsýslulög og lög af því tagi séu ætíð í heiðri höfð í hinni opinberu stjórnsýslu.