135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá þörfu umræðu sem málshefjandi vekur athygli á. Það getur oft verið mjög skynsamlegt og hagkvæmt að útvista opinberum verkefnum, fá samkeppni, samanburð og eftirlit með opinberum rekstri. Það getur verið jákvætt. Hins vegar þarf að gæta vel að því hvernig það er gert.

Hv. málshefjandi sagði í ræðu sinni að menn kölluðu iðulega til sín blaðamenn og fleiri þegar þeir skrifuðu undir samninga. Ég man ekki eftir slíkum fundi þegar Byrgið fékk fjárveitingar og heldur ekki þegar Grímseyjarferjan fékk fjárveitingar. En það er sennilega vegna þess að þar voru ekki gerðir samningar. Það er kannski vandamálið. Það mætti gjarnan oftar gera samninga, að mínu mati, en ekki. Ég hef reyndar flutt frumvarp um breytingu á fjárreiðulögum, um að alltaf skuli gera samninga þegar aðili fær tvö ár í röð fjárveitingar úr ríkissjóði.

Alþingi gengur svo sem á undan með þetta fordæmi. Við erum með vegalög, með ráðstöfun símapeninganna, samgönguáætlun o.s.frv., með iðnaðarmálagjald og búvörugjald þar sem búið er að ráðstafa peningum um alla framtíð úr ríkissjóði. Ég held að menn ættu að skoða alla þessa þætti og athuga hvort við eigum ekki að gæta að stjórnarskránni sem segir að ekki megi ráðstafa neinum peningum úr ríkissjóði nema með fjárlögum eða fjáraukalögum.

Fjáraukalög eiga að sjálfsögðu bara að mæta óvæntum atburðum sem koma upp, sem menn gátu ekki séð fyrir þegar fjárlög voru sett. Hið sama gildir um nýja lagasetningu Alþingis sem felur í sér fjárútlát en þá er Alþingi sjálft í reynd búið að samþykkja fjáraukalögin. Ég held að þessi umræða sé mjög brýn og mikilvægt að menn taki á því og komi á meiri aga í kerfinu, að gerðir verði (Forseti hringir.) samningar um öll fjárútlát ríkisins til meira en eins árs.