135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[16:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert athugavert við það að ríkið geri samninga, til dæmis um útvistun verkefna eða um það hvernig fjárveitingum skuli hagað til tiltekinnar starfsemi svo fremi að lagaheimildir séu í lagi fyrir slíku og þær séu fyrir hendi. Það er ekki viðskiptavæðing starfsemi ríkisins.

Má ég nefna dæmi? Það er einn samningur í skýrslunni sem var útbýtt í gær sem heyrir undir forsætisráðuneytið og var gerður í fyrra. Það er samningur sem ég ritaði undir með fyrirvara um samþykki Alþingis varðandi fjárveitingar til Vesturfarasetursins á Hofsósi. Þar er ekki um að ræða einhvern samning um viðskipti. Þar er um að ræða framlag til menningarstarfsemi og uppbyggingar á næstu árum. En þar er málið þess eðlis að viðkomandi aðilar verða að hafa fast land undir fótum um það hvað þeir geta gert í framtíðinni. Þess vegna er samningur til nokkurra ára auðvitað rétta leiðin í því máli og ekkert við hann að athuga enda eru fjárveitingarnar háðar því að þær verði samþykktar hér á Alþingi og allir samningsaðilar gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því.

Hins vegar er það líka þannig, og inn á það var komið áðan, að það má vel vera að þingið eigi að taka upp önnur vinnubrögð varðandi þessar svokölluðu heimildir í 6. gr. fjárlaga. Það má vel vera að það eigi að skerpa á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í kringum þær, á orðalagi greinanna, gera þær nákvæmari og svo framvegis eða þessara atriða sem fara inn í 6. greinina. En aðalatriðið er þó það að þingmenn sem samþykkja slíkar heimildir í 6. gr. viti hvað þeir eru að samþykkja og láti það ekki um sig spyrjast eftir á að þeir hafi samþykkt eitthvað sem þeir vissu ekki hvað var eða vissu ekki hvað þýddi. Því miður hafa verið brögð að því.