135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:07]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri að forseti hefur flutt mig suður yfir Hringbrautina en við kjósum nú að vera hér norðan megin sem fyrr.

Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að hafa lagt fram það mikilvæga og umfangsmikla mál sem hér er til umfjöllunar og fyrir þá grein sem hún hefur gert fyrir því. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur verið unnið vel og lengi að undirbúningi málsins og að því hafa komið fjölmargir aðilar á undanförnum árum. Ég vil sem formaður umhverfisnefndar færa þeim öllum þakkir fyrir þeirra starf að því að vanda sem allra best undirbúninginn að því flókna og mikilvæga viðfangsefni sem skipulagsmálin eru. Ég held að það verði til þess að greiða fyrir störfunum hér í þinginu og heyri það strax á umræðunni hversu vel hefur verið staðið að undirbúningnum og vandað til verka. Eins og fram hefur komið er undirbúningsferlið að framlagningu málsins hér í þinginu orðið nærri sex ára og hefur það verið unnið í tíð fjögurra umhverfisráðherra þriggja stjórnmálaflokka þannig að allnokkra umfjöllun hefur það hlotið. Málið var sýnt á síðasta þingi, sem kallað er, aðfaranótt 1. mars hygg ég að það hafi verið, en hlaut í sjálfu sér enga þinglega meðferð í þeim skilningi. Það var kynnt á næturfundi og sent út til umsagnar en engir gestir kallaðir fyrir nefndina eða nein vinna þess háttar sem þá fór fram eftir því sem ég best veit.

Hér hefur aðeins verið til umræðu sú vinna sem fram undan er í þinginu og held ég að engum blandist hugur um það sem þekkir til byggingar- og skipulagsmála að það verður talsverður starfi. Margir hafa hagsmuna að gæta í þessum málaflokki og margir hafa sjónarmið fram að færa sem umhverfisnefnd mun þurfa að taka til umfjöllunar, hlýða á og vinna úr. Ég þekki illa til byggingar- og skipulagsmála ef það starf má vinna fyrr en sumarleyfi þingsins skellur á. Ég skal þó ekki segja um það, nokkrir þingdagar hafa bæst við í september við breytingarnar sem forseti Alþingis hefur beitt sér fyrir á starfsháttum þingsins. Kannski það mætti hjálpa okkur við að ljúka málinu en þó held ég að það skipti mestu máli að vandað sé til afgreiðslu þess, þó að það þurfi þá að koma aftur fram á öðru þingi. Ef það hlýtur góða úrvinnslu á þessu þingi verður hægt að afgreiða það greiðlega þá.

Ég held líka að þær umræður sem við heyrðum hér strax í byrjun frá fulltrúum nokkurra stjórnmálaflokka lýsi það jákvæðum undirtektum við meginatriði málsins að það veki vonir um að nokkur samstaða sé um margt af því sem í frumvarpinu er. Við vitum það þó hér í þessum sal að í jafnstórpólitískum málum og skipulagsmálum geta deiluefni og álitamál svo sannarlega tafið fyrir vinnslu mála og við hljótum að koma aðeins að því í umræðum.

Ég held að það sé að mörgu leyti heppilegur tími að innleiða nýja og endurskoðaða löggjöf í skipulagsmálunum einmitt núna. Eftir lögunum sem hér á að leysa af hólmi, lög nr. 73/1997, eiga öll sveitarfélög að hafa lokið því að skipuleggja sitt land á þessu ári. Það eru út af fyrir sig ágætistímamót til að endurskoða löggjöfina sem við höfum notað síðasta áratug. Í málaflokki sem hefur verið í jafnmikilli þróun og gerjun og skipulagsmálin hafa verið er orðið fullt tilefni til þess. Ég held að þau fjölmörgu deilumál sem við höfum séð, og jafnvel vaxandi fjöldi deilumála og átakamála í skipulagsmálum, gefi fullt tilefni til þess að gangast fyrir nýrri lagasetningu. Þá er ekki síst ástæða til að fagna þeirri auknu áherslu sem ráðherrann boðar á samráð við íbúa og samráð í ferlinu.

Það er alveg ljóst að deilur um framkvæmdir sem varða skipulagsmál koma allt of seint upp í ferlinu. Við fáum upp deilur um stórframkvæmdir þegar búið er að vinna mikla vinnu í málinu, þegar búið er að kosta til bæði fé og fyrirhöfn, þá fyrst erum við að fá fram andstöðu sem aftur rekur málin á byrjunarreit og gerir jafnvel að engu bæði mikla vinnu og fé sem kostað hefur verið til. Ég held að það blasi við hverjum manni að fullt tilefni sé til að leita leiða til að standa betur að kynningu strax í upphafi ferils og tryggja að kynningin fari fram áður en hannað hefur verið eða útfærðar hugmyndir. Samráð við íbúa og lýðræðisleg umfjöllun um skipulagsmál felst ekki í því að stilla íbúunum frammi fyrir orðnum hlut og láta þá segja af eða á. Slíkt starf þarf að hefjast miklu fyrr og því er ástæða til að fagna þeim þáttum í frumvarpinu sem leggja áherslu á aukið samráð við íbúa. Það er sannarlega þörf á því.

Ég fagna líka þeirri áherslu sem lögð er á það að flytja form og útlit bygginga yfir í skipulagsþátt málsins. Ég held að mikið af þeim deilum sem risið hafa í kringum þennan málaflokk hafi m.a. stafað af því að við höfum gert allt of lítið af því í skipulagi og gengið allt of skammt í því að gera fyrirframkröfur um útlit og form þess sem rísa skal. Þannig höfum við því miður fengið inn í götumyndir slys, slæma hönnun, léleg hús, sem aftur hefur skapað andstöðu við endurnýjun og uppbyggingu í eldri hverfum. Fólk hefur talið sig hafa vítin til að varast, sem hefur verið ýmislegt það sem byggt hefur verið inn í gamlar götumyndir hér í gegnum árin og einkanlega hin síðustu ár. Þessu vörnum við fyrst og fremst með því að setja skilmálana fyrir fram, setja leikreglurnar fyrir fram, þannig að þeim sem fyrir slíkum framkvæmdum ætla að standa eða endurnýjunum sé algjörlega ljóst frá upphafi hvaða kröfur eru til þeirra gerðar um form og útlit og að um það hafi farið fram lýðræðisleg umfjöllun í þeirri grennd sem þar er. Ég held það geti líka orðið til bóta í málaflokknum og til þess að greiða fyrir þeirri nauðsynlegu endurnýjun í byggð og borgarmynd, eða bæjarmynd eftir atvikum, sem sannarlega þarf að verða í nútímasamfélagi sem er alltaf að þróast og breytast.

Ég held þó að öllum sé ljóst að stærsta nýmælið í frumvarpinu er landsskipulagið, landsskipulagsáætlunin, sem jafnframt hlýtur að verða langstærsta álitamálið og kannski það sem flestir mundu hafa einhverja fyrirvara við. Þar rekast jú á sjónarmið um sjálfsforræði sveitarfélaga, sem hefur verið mjög sterkt í skipulagsmálum á Íslandi, og síðan sú einfalda skynsemdarhugmynd að við höfum eina megináætlun um skipulag landsins alls því að hér býr jú ein þjóð með eina tungu, sögu og menningu. Sveitarfélögin hafa haft algjört forræði í skipulagsmálunum og þegar það berst í tal að Alþingi samþykki stefnu fyrir landið allt í skipulagsmálum vakna hjá mér, sem hef verið í borgarstjórn Reykjavíkur, eins og hjá fleiri fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum, áhyggjur af því hvort þingið ætli nú að seilast í að skipuleggja Vatnsmýrina í Reykjavík þvert á vilja borgarbúa. Við þekkjum öll það heita deilumál sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur verið en staðsetning megininnanlandsflugvalla eða alþjóðaflugvalla er jú eitt af þeim stóru skipulagsmálum sem skiptar skoðanir eru um hvort eigi að vera á forræði landstjórnarinnar eða á forræði einstakra sveitarfélaga.

Á móti hefur maður auðvitað skoðun á ýmsum öðrum stórframkvæmdum, ýmissi annarri starfsemi sem kann að fara fram í öðrum sveitarfélögum en manns eigin, en maður telur samt að varði ásýnd landsins alls, ímynd þess, geti haft áhrif á þróun samfélagsins alls, og telur að þó að maður búi ekki í því sveitarfélagi eigi maður engu að síður sem landsmaður og Íslendingur að hafa áhrif á það. Að Alþingi, sem maður hefur kosið, hljóti að eiga að hafa eitthvað um það skipulag að segja. Auðvitað eiga bæði þessi sjónarmið, sjónarmið heimamanna og sjónarmið landsmanna, rétt á sér og hér er verkefnið að innleiða landsskipulagsáætlun. Það er í raun og veru ótrúlegt að árið 2008 séum við ekki þegar með slíka áætlun. Það er augljóslega skynsamlegt að hafa eina sæmilega heildstæða áætlun um skipulag landsins, en gera það með þeim hætti að við virðum sjálfsákvörðunarrétt fólks heima í sveitarfélögunum og sjálfsforræði þeirra með samráðsferli sem kannski felur í sér með einhverjum hætti einhvers konar gagnkvæmt neitunarvald þegar öllu er á botninn hvolft. Það verður eitt af viðkvæmustu umfjöllunarefnunum í þessu, hversu langt getur ríkið gengið í því að hlutast til um stærri skipulagsmál út um landið og hversu langt á sjálfsforræði sveitarfélaganna í þessu að ná?

Fleiri mál sem snúa að sveitarfélögunum eru hér álitamál. Það þarfnast t.d. sérstakrar skoðunar með hvaða hætti við ætlum að úrskurða um það þegar deilur rísa milli sveitarfélaga um skipulagsmál, landamæramál ef svo má segja. Ég held að flestir séu á einu máli um að langfarsælast sé að þau sveitarfélög sem í hlut eiga í slíkum deilum ráði fram úr þeim sjálf og að við höfum lagarammann þannig að sem allra best sé tryggt að það séu fyrst og fremst þau sveitarfélög sem í hlut eiga sem sjálf verði að taka á slíkum vandkvæðum. En vissulega þurfa að vera einhver úrræði til staðar ef þau eiga þess ekki kost.

Ég hlakka til að fá þessi stóru mál til umfjöllunar í umhverfisnefnd og vænti góðs samstarfs við nefndarmenn um vinnslu málsins.