135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:21]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til skipulagslaga sem tengist frumvarpi til laga um mannvirki og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir. Ég tek þátt í þessari umræðu bæði af því að ég hef sérstakan áhuga á þessu máli en ég er líka að hlaupa í skarðið fyrir Höskuld Þórhallsson, hv. þm. Framsóknarflokksins, sem eignaðist son í morgun. Ég kem hér í hans stað en þetta mál mun fara til umhverfisnefndar þar sem hann er fulltrúi okkar.

Það hefur verið unnið að þessu máli mjög lengi. Það kemur fram á bls. 23 í athugasemdum við lagafrumvarpið að á sínum tíma, þegar sú er hér stendur var í umhverfisráðuneytinu, voru skipaðar tvær nefndir til að endurskoða skipulags- og byggingarlög, annars vegar skipulagsþáttinn og hins vegar byggingarþáttinn. Það voru ákveðin sjónarmið sem þeirri nefnd var ætlað að taka mið af og þau sjónarmið voru að skilgreina ætti með skýrari hætti mismunandi hlutverk skipulagsáætlana til að koma í veg fyrir skörun þeirra, að tryggja eðlilegt samspil og samráð milli skipulagsstiga og auka skilvirkni og sveigjanleika í skipulagsgerð og jafnframt að auka samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Einnig fjallaði nefndin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og um þörf á skipulagsákvæðum til almennrar stefnumörkunar á landsvísu. Þá átti hún að fara yfir hlutverk samvinnunefndar miðhálendisins og hvernig fara skyldi með skipulagsákvarðanir á miðhálendinu. Þetta var verkefni nefndarinnar.

Í störfum sínum leitaðist nefndin við að kljúfa sem gleggst á milli þeirra ákvæða sem annars vegar var talið að ættu að vera í skipulagslögum og hins vegar í lögum um mannvirki. Þetta byggðist fyrst og fremst á því að framkvæmd mannvirkjalaga er talin tæknilegs eðlis en skipulagslög eru í eðli sínu bundin mótun stefnu um landnotkun, þ.e. þau eru pólitísks eðlis og það er mikill munur þar á.

Hér kemur líka fram að í júní 2006 voru frumvörpin send 159 aðilum, þar á meðal öllum sveitarfélögum landsins, þannig að það er búið að skoða málið mjög lengi. Síðan er forsagan rakin og ég tel ástæðu til að gera forsöguna að umtalsefni. Ný skipulags- og byggingarlög voru samþykkt árið 1997 og þá komu ýmis nýmæli og þau eru tilgreind hér. Tekið er fram að sveitarstjórnir fari með skipulagsmál sveitarfélaga og að í skipulags- og byggingarlögum sé líka gert ráð fyrir fyrir skipulagsgerð á svæðisstigi, þrátt fyrir að ekki sé til staðar samsvarandi stjórnsýslustig, á Íslandi er bara annars vegar ríkið og hins vegar sveitarfélögin en ekki eitthvert stjórnsýslustig þar á milli eins og er víða á Norðurlöndunum. Þannig gætu sveitarfélög unnið að svæðisskipulagi með öðrum sveitarfélögum og jafnframt fór sérstök samvinnunefnd með svæðisskipulagsmál á miðhálendinu.

Á þessum tíma var ábyrgð á framkvæmd skipulagsgerða færð að verulegu leyti frá ríki til sveitarfélaga, skipulagsstjórn ríkisins var lögð af og Skipulagsstofnun ætlað hlutverk vegna áætlana um landnotkun á landsvísu. Skilgreindar voru þrjár tegundir skipulagsáætlana, þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Þetta var árið 1997. Síðan var skipuð sérstök skipulagsnefnd fyrir miðhálendið, þannig að miðhálendið hefur lotið öðrum lögmálum varðandi skipulag en sveitarfélögin og önnur landsvæði almennt.

Á bls. 26 er umboði samvinnunefndar miðhálendisins lýst en þar stendur, með leyfi forseta:

„Þar starfar viðvarandi sérstök samvinnunefnd sem fer með gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið og gegnir þar bæði hlutverki samvinnunefndar og sveitarstjórnar ef borið er saman við gerð svæðisskipulags á láglendi.“

Þar er því önnur stjórnsýsla en á láglendi og það er vert að halda því til haga.

Í núverandi frumvarpi eru nýmæli. Í fyrsta lagi skýrari fyrirmæli um samráð og kynningu í gerð skipulagsáætlana gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Reyna á að auka aðkomu almennings, sem er afar jákvætt og mjög brýnt eins og hér hefur komið fram. Einnig er lagt til að Skipulagsstofnun sé falið það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra. Hingað til hefur ráðherra staðfest þessar tillögur en núna færist það hlutverk til Skipulagsstofnunar. Talið er að þetta muni einfalda stjórnsýslu og leiða til hagræðingar. Lagt er til að „lögfest verði svokallað rammaskipulag en slíkt skipulag er heildstæð áætlun um uppbyggingu og skipulag ákveðinna hluta aðalskipulags og gefur fyrirheit um hvernig það verður útfært í deiliskipulagi sem veitir íbúum sveitarfélagsins betri upplýsingar um fyrirhugaða framtíðarnotkun lands“. Mér finnst þetta vera til bóta.

Síðan er stóra málið, sem er kannski fjórða nýmælið, og það er að í gildandi lögum er ekki fyrir hendi skýr farvegur fyrir ríkisvaldið til að setja fram almenna skipulagsstefnu sem markar stefnu um skipulagsákvarðanir sem varða almannahagsmuni og geta leyst úr ágreiningsmálum, t.d. á milli ríkis og einstakra sveitarfélaga, um skipulagsmál sem talin eru varða þjóðarhagsmuni. Hér kemur fram að með hinni svokölluðu landsskipulagsáætlun er viðurkennd þörf á að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum og sú sýn, sú landsskipulagsáætlun, verði lögð til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Ef menn fletta upp á bls. 5 í frumvarpinu og lesa 10. gr. sem fjallar einmitt um landsskipulagsáætlun, þá kemur fram að hún eigi að útfærast í samræmi við þarfir um samræmda stefnu opinberra aðila um landnotkun með tilliti til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra sjónarmiða. Þetta eru auðvitað sjónarmið sem geta stangast á en þau geta líka farið saman, þannig að þetta er allt mjög vandmeðfarið. Fram kemur að endurskoða eigi þessa skipulagsáætlun á fjögurra ára fresti, en hún er sett til tólf ára í senn, þannig að ætla má að vinna við endurskoðun á landsskipulagsáætlun verði viðvarandi.

Svo segir í síðustu setningu 10. gr., virðulegur forseti:

„Landsskipulagsáætlun sem felur í sér stefnu um landnotkun er bindandi við gerð skipulags samkvæmt lögum þessum og skulu sveitarfélög endurskoða staðfest skipulag sitt í samræmi við áætlunina við næstu endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins en þó eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt hennar.“

Hér er verið að skýra eins og algjörlega klippt út úr pappa að þessi landsskipulagsáætlun er leiðandi, hún ræður. Síðan verða sveitarfélögin að aðlaga sig að henni en ekki öfugt. Það er mjög brýnt að allir átti sig á að við erum að innleiða hér nýtt skipulagsstig sem ég vona að þokkaleg sátt verði um þó að ég sjái alveg að það geti orðið uppspretta deilna. Við hljótum að verða að taka tillit til almennra áætlana sem við gerum í landinu, við erum með samgönguáætlun og náttúruverndaráætlun og við eigum örugglega eftir að setja alls kyns fleiri áætlanir, rammaáætlun um nýtingu orku og jarðvarma o.s.frv. Menn verða að sjá þessa hluti í heildarsamhengi en ekki í kökusneiðahugsun og landsskipulagsáætlunin snýr að þessu.

Í 11. gr. segir að ráðherra ákveði áherslur landsskipulagsáætlunar hverju sinni í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og felur Skipulagsstofnun að vinna drög að landsskipulagsáætlun.

Það kemur líka fram, virðulegur forseti, neðar í 11. gr., að umhverfisráðherra á að taka drög Skipulagsstofnunar að landsskipulagsáætlun til skoðunar og ganga frá tillögu að landsskipulagsáætlun að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hlutaðeigandi ráðuneyti og jafnframt skuli leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarfélaga ef landsskipulagsáætlun varðar þau sérstaklega.

Ég tel að í 11. gr. sé falið mjög mikið samráð við sveitarfélögin, það er ekki verið að koma aftan að þeim á nokkurn hátt, það er haft samráð við sveitarfélögin. Það er bæði verið að vinna áherslurnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem eru regnhlífarsamtök fyrir sveitarfélögin, og óskað umsagna frá hlutaðeigandi sveitarfélögum, þ.e. ef landsskipulagsáætlun nær til þeirra. Í frumvarpinu er því boðið upp á mjög mikið samráðsferli.

Landsskipulagsáætlunina á að leggja fyrir Alþingi 2010. Það kemur fram í bráðabirgðaákvæði að umhverfisráðherra skuli leggja fyrir Alþingi 2010 tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsáætlun sem ætlað er að fjalla um stefnumörkun á miðhálendi Íslands. Það er pólitískt val að taka miðhálendið út fyrst, af því að landsskipulagsáætlun getur almennt náð til alls landsins eða svæða, og þarna er miðhálendið valið sem er gott mál. Helstu deilumálin snúa kannski að miðhálendinu og það er almennt talið viðkvæmasta svæðið. Og væntanlega er áætlunin lögð hér fyrir til að þingið geti þá breytt henni, ég túlka það a.m.k. þannig að hún komi hér til umfjöllunar og það hlýtur að vera þannig. Þetta er árið 2010 og ég velti því svolítið fyrir mér, virðulegur forseti, af því að nú er þetta mál að koma hér inn árið 2008 og ég veit ekki hvort næst að klára það í sumar — ég hef takmarkaða trú á því af því að þetta er svo flókið mál — þannig að ég sé fram á að þetta ferli tefjist talsvert, ég veit ekki hve lengi, og því finnst mér frekar ólíklegt að þingsályktunartillagan komi inn 2010, þannig að það frestast eitthvað. En þegar hún kemur inn þá tel ég frekar hæpið að hún fljúgi hér í gegn á mjög stuttum tíma, ég ímynda mér að það taki talsverðan tíma að vinna hana hér í þinginu líka. Ég hef því áhuga á að heyra hvaða ferli hæstv. umhverfisráðherra sér fyrir sér, af því að það er heldur ekki gott þegar verið er að vinna slík mál að það taki langan tíma. Það er tilhneiging hjá stjórnsýslunni að lama eiginlega allt á meðan og þá er erfitt að taka ákvarðanir jafnvel um brýn mál sem fara þarf í.

Ég nefni þetta vegna þess að ég veit að það er í gangi vinna í umhverfisráðuneytinu og ég nefni hér eitt lítið mál sem er stórt fyrir suma en lítið fyrir aðra og það eru vega- og slóðamál á hálendinu sem hagsmunasamtök eins og mótorhjólamenn og Ferðaklúbburinn 4x4 hafa verið að vinna í og menn vonast til að klárist mjög bráðlega svo hægt sé að ákveða hvar megi keyra og hvar ekki og er mikið umhverfismál að greiða úr því. Það væri ekki gott ef slíkar ákvarðanir tefðust kannski til 2014, 2015, að mínu mati. Það er ekki umhverfinu í hag. Því væri áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra segir um tímasetningar í vinnslu þessa máls.

Hér er líka tilgreint að setja eigi svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er skylt en ekki heimilt, og það er föst nefnd, svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, sem á að halda utan um það.

Ég ætla að nýta þær örfáu mínútur sem ég á eftir, virðulegur forseti, til að lýsa í fáum dráttum skipulagsmálum í sveitarfélögum og hvað við sjáum miklar deilur um þau og hversu brýnt það er að auka samráð við almenning, sem er mjög flókið mál í framkvæmd. Við höfum upplifað það ítrekað í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, Seltjarnarnesi, að þar hafa spunnist miklar deilur um skipulagsmál og það má segja að það sé bæði óeðlilegt og eðlilegt. Það er kannski eðlilegt að það geti orðið uppspretta átaka að skipuleggja sveitarfélag sem er sprungið, þ.e. þegar ekkert land er eftir til að byggja á nema land sem fólki þykir það mikilvægt frá náttúrunnar hendi að það vill ekki að byggt sé á því, og þá er ég aðallega að tala um vestursvæði Seltjarnarness, útivistarsvæðið í kringum Gróttu og Nesstofu. Á sama tíma leggur sveitarfélagið ofurkapp á að fjölga íbúum langt út fyrir eðlileg mörk að mínu mati og margra annarra. Þá skapast deilur um hvað á að byggja mikið og hvernig og tilhneiging hefur verið til að byggja hátt og of mikið að margra mati. Nýjasta dæmið um það er svæðið austan við Gróttu, norðan við Nesstofu, þar sem fyrirtækið Þyrping hf. hefur keypt land og virðist hafa fengið það verkefni hjá sveitarfélaginu að skipuleggja það, sjá um deiliskipulagstillögu eins og skipulagsnefndin þar sé hálflömuð og hafi litlar skoðanir á málinu o.s.frv., alla vega miðað við hvernig þar er rætt. Þetta hefur orðið uppspretta mikilla deilna. Það er alveg skýrt í aðalskipulaginu að byggð sem þar á að koma á að vera í samræmi við byggð sem fyrir er, sem eru einbýlishús, raðhús, parhús og lág hús, á meðan verið er að teikna 11 blokkir upp á þrjár, fjórar hæðir, þannig að þetta gengur ekki upp. Í skipulaginu stendur að byggingarhlutfall megi vera allt að 0,8, sem er allt of hátt, en það stendur bara „allt að“ svo það má líka vera lægra og núna er hlutfallið í kringum 0,3 á svæðinu.

Það er allt of lítið samráð í svona ferli, þannig að ég fagna því að leggja á meiri (Forseti hringir.) áherslu á samráð í þeim nýju lögum sem við erum að fjalla um hérna.