135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:45]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Málið sem hér liggur fyrir er búið að vera lengi í vinnslu og hér hafa allnokkrir sveitarstjórnarmenn tekið til máls við þessa umræðu, fyrrverandi og núverandi, og eiga sjálfsagt eftir að bæta í eftir því sem líður á umræðuna.

Fyrst af öllu þakka ég hæstv. umhverfisráðherra hennar framlagningu á frumvarpinu og mjög málefnalega og góða yfirferð um það. Sömuleiðis tek ég undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Helga Hjörvar, formanni umhverfisnefndar, þegar hann gerði grein fyrir afstöðu sinni og sýn til frumvarpsins. Ljóst er að nefndarinnar bíður töluvert mikil vinna við að samræma mjög ólík sjónarmið sem upp eiga eftir að koma í vinnslu hennar á frumvarpinu.

Það er hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni að þetta er sá málaflokkur mest er ræddur innan sveitarfélaganna, þar eru skiptar skoðanir á hverju einasta máli, liggur við, sem upp kemur. Það er því alveg ljóst í mínum huga að hér er ýmislegt sem á eftir að kosta mikla vinnu og hörð orðaskipti innan nefndar sem og í samskiptum hennar við ýmsa hagsmunaaðila sem telja sig hafa margs að gæta svo að frumvarpið verði að þeim lögum sem fólk vill sjá.

Í öllum megindráttum er ég mjög ánægður með vinnuna sem hér liggur fyrir og hef átt aðkomu að henni á fyrri stigum, m.a. í ágætu samstarfi við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson. Það eru ýmis atriði sem ástæða er til að fagna og létta á stjórnsýslu varðandi meðferð mála í sveitarstjórn. Hér er átt við heimildir skipulagsnefndar til að taka á þáttum eða ákvörðunum sem nefndakerfi sveitarfélaganna og sveitarstjórnir hafa hingað til ekki haft heimild til að framvísa til skipulagsnefndar. Þær heimildir koma nú hér inn og ég fagna því sérstaklega. Það mun létta verulega vinnslu mála og stytta tímann sem mál eru í bið eftir afgreiðslu. Sömuleiðis eru skýrð nokkur ákvæði varðandi starfsmenn þessa málaflokks hjá sveitarfélögum þótt ég leyfi mér að efast um tilgang eða gagnsemi þess að mæla fyrir um í lögum og setja fram ákveðnar menntunarkröfur til tiltekinna starfsmanna sveitarfélaga eins og fram kemur í 7. gr. frumvarpsins. Ég tel óþarft að negla slíka skilyrðingu um menntun inn í lagatexta. Ég held að menn séu farnir að ganga dálítið langt þegar settar eru slíkar kröfur inn í texta frá hinu háa Alþingi.

Ég fagna líka ákvæðum varðandi svæðisskipulagið sem verið er að gera. Verið er að festa það meira í formi og gera það þannig úr garði að það hefur lengri líftíma en svo að sveitarfélögin setji fulltrúa sína til verka yfir ákveðið verkefni sem gleymist svo. Enn fremur er sú breyting gerð að því er lýtur að höfuðborgarsvæðinu, að þar er felld niður heimild og sveitarfélögin skylduð til að taka upp samstarf. Ég tel það mjög til gagns að sveitarfélögin, ekki síst á þessu svæði, skuli skylduð til að eiga samstarf um skipulagsmál. Það er gott mál og ætti í rauninni ekki að þurfa taka fram en engu að síður er það hér inni og ég lýsi mig fylgjandi því.

Ég set spurningarmerki við að búa til tvær stofnanir á þessu sviði og tengi það þeirri umræðu sem hér á eftir að fara fram um frumvarp til mannvirkjalaga. Ég hef ákveðinn fyrirvara á því dæmi og tel að þessum málum væri betur komið í einni stofnun. Ég hef líka fyrirvara á kostnaðarmatinu sem fylgir frumvarpinu og unnið er af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Miðað við innihaldið og þær skyldur sem lagðar eru á nýja stofnun inn á sveitarfélög o.s.frv., dreg ég í efa að það matið varðandi kostnað standist. Ég hef ekki neinn útreikning á reiðum höndum en reynsla mín segir að kostnaðarmatið sé ekki það nákvæmt að hægt sé að ætlast til að það standist að það muni kosta okkur eitt ársverk að koma t.d. svokallaðri landsskipulagsáætlun til framkvæmda. Sömuleiðis er bara eitt ársverk á fjögurra ára fresti sem áætlað er að kosti 2 milljónir við endurskoðun þess o.s.frv. Ef ég hef skilið textann rétt í frumvarpinu kallar það á miklu meiri vinnu en svo.

Önnur atriði í frumvarpinu sem lúta að tímaramma skipulagsáætlana, eins og aðalskipulagi og deiliskipulagi, hefði ég gjarnan viljað sjá með öðrum hætti. Þar eru þó lagðar inn breytingar til bóta sem geta stytt vinnu ef t.d. eru ákvæði í forsögn í aðalskipulagi sem kalla ekki á að menn þurfi að hafa langa auglýsingafresti í deiliskipulaginu. Þegar maður lítur yfir ferlið allt er gríðarlega langur tími ætlaður til að breyta aðalskipulagi eða deiliskipulagi og ekki er óeðlilegt þó að uppi sé krafa um að reyna að stytta tímann eins og hægt er. Ég tel raunar að með frumvarpinu, eins og það liggur fyrir nú, sé betri grunnur en áður til þess að ræða tímastyttingu á formlegu auglýsingaferli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri nýbreytni að sveitarstjórnin búi til og kynni fyrir íbúum og hagsmunaaðilum lýsingu á skipulagsverkefninu áður en það fer í formlegt ferli. Þar ætti því að vera komin ástæða til að stytta auglýsingafresti og umsagnarfresti á síðari stigum. Ég tel að sumt í þeim efnum — þegar ég var að leggja þetta saman var ég kominn niður í 30–40 vikur varðandi tiltekinn frest áður en málið var komið til enda. Það er að mínu mati allt of langur tími sem þarf að líða áður en málið er afgreitt miðað við stöðuna í atvinnuháttum og tækni í dag.

Stóra málið í frumvarpinu er hins vegar það sem hér hefur verið rætt og lýtur að landsskipulagi. Ég lýsi því yfir hér og nú að ég er algjörlega andvígur ákvæðinu eins og það liggur fyrir í texta frumvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar, svo ég byrji nú á jákvæðum nótum, að það væri og er afskaplega æskilegt að ríkisvaldið geri sér og hafi einhverja mynd af því hvernig búsetu í landinu eigi að vera háttað. Það væri gott þótt ekki væri nema að fyrir lægi sýn ríkisvaldsins til grunngerðar samfélagsins, helstu þátta í samgöngum, veitum, skógrækt o.s.frv., en einnig með tilliti til þess hvernig við viljum byggja þetta land. Það er gott.

Vandinn liggur hins vegar í því að það verður ekki gert með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að ríkisvaldið geti algjörlega tekið fram fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga, stjórn fólks í héraði. Það gerir það með þingsályktun að tillögu ráðherra sem skyldar sveitarstjórnir og almenning í landinu til að fara að þeirri tillögu sem hér yrði samþykkt. Í því felst gríðarleg skuldbinding og til muna meiri en hægt er að sætta sig við. Ástæða þess hversu hart ég bregst við kann að vera sú að mér er ekki ljóst af lestri frumvarpsins og greinargerðarinnar hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar þessari landsskipulagsáætlun. Ef ég ætti t.d. að taka skýringar við frumvarpið í 10. gr. á bls. 35 í frumvarpinu þá finnst mér mjög rúmt og langt til seilst í þeim heimildum sem ríkið á að hafa við þetta landsskipulag sitt sem sveitarstjórnirnar og sveitarfélögin eiga að vera bundin af. Landsskipulagsáætlun getur tekið á breytingum á búsetu í þéttbýli og dreifbýli. Ríkið á að hafa umsagnarrétt um búgarða eða frístundabyggð o.s.frv. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að vísa og ávísa þessu valdi algjörlega frá héruðunum, sveitarstjórnunum eða almenningi í landinu hingað inn. Ég get alveg játað að mér þykir nóg til seilst þegar við horfum upp á hið svokallaða þjóðlendumál sem hefur í mörg ár verið í vinnslu og tryggir ríkisvaldinu gríðarlegt umboð yfir landi svo að við þurfum þá ekki að ganga enn lengra og takmarka svigrúm eða umboð fólks í héraði að fara með sín mál.

Eins og þessu ferli er lýst í frumvarpinu og greinargerðinni þykir mér landsskipulagsáætlunin vera sett fram með þeim hætti að hún fari ekki í almenna kynningu fyrr en búið er að vinna upp tillögu að henni. Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við ef maður ber það saman við þann anda sem annars kemur fram í frumvarpinu, þ.e. að efla samráð við íbúa af hálfu sveitarstjórnanna sem ég fagna mjög. Það er mjög gott og vel lagt upp í frumvarpinu hvernig því samráði á að vera háttað. Þá hljótum við að gera sömu kröfu til ríkisvaldsins um kynningu og samráð á tillögum þess í sama anda og gert er varðandi aðalskipulag, svæðisskipulag og deiliskipulag.

Hér er einnig atriði sem ég vil nefna og ber að hafa í huga að sá sem hér talar átti sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég ætla ekki að halla með neinum hætti á þá ágætu stofnun. Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra ákveði áherslur landsskipulagsáætlunar hverju sinni í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og á þeim grunni séu drögin að landsskipulagsáætlun unnin. Samband íslenskra sveitarfélaga eða stjórn þess hefur ekkert umboð sveitarstjórna í landinu til að vinna að þessum málum. Raunar er málum svo komið að sveitarfélög landsins þurfa ekki að vera aðilar eða fulltrúar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Að mínu mati getur það því ekki gengið að semja áætlun sem á að hafa svo sterka stöðu án samvinnu við einhvern samráðsvettvang sveitarfélaga í landinu sem hefur umboð til að vinna með þeirra mál. Um getur verið að ræða hvert og eitt sveitarfélag, einhverjar samkundur, samtök eða stofnun sem þau hafa veitt umboð til að vinna að framgangi mála sem þessara.

Ég íreka því þá skoðun mína, virðulegi forseti, að í öllum meginatriðum er ég afskaplega ánægður með frumvarpið sem hér liggur fyrir og tel það til stórra bóta í þeim vandasama og viðamikla málaflokki sem skipulagsmál eru. En þennan fyrirvara hef ég á frumvarpinu og ítreka hann og kveð mjög sterkt að orði í því efni.