135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:07]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir að leggja þetta frumvarp fram og gera grein fyrir því ferli sem það hefur verið í frá árinu 2002. Engum blöðum er um það að fletta að frumvarpið er af hinu góða fyrir margra hluta sakir og mun einfalda og skýra ýmsa þætti sem fram til þessa hafa verið frekar óskýrir.

Ég fagna því sem fram kemur í frumvarpinu um svæðaskipulag, aðalskipulag, rammaskipulag og deiliskipulag. Ég hefði kosið að samhliða aðalskipulagi hefði sveitarfélögum einfaldlega verið gert skylt að leggja fram rammaskipulag. Það mundi að mínu mati auðvelda næstu ferð úr rammaskipulagi í deiliskipulag og spara tíma sem er dýrmætur. Það yrði ekki síður ljóst mun fyrr í ferlinu með hvaða hætti deiliskipulagið kemur til með að líta út. Oftar en ekki veldur aðalskipulag minni óróa, ef við getum orðað það svo, en sjálft deiliskipulagið sem síðar kemur. Ég hefði kosið að rammaskipulag fylgdi aðalskipulagi og sveitarfélögum væri almennt gert skylt að láta það fylgja.

Við þekkjum öll sem starfað höfum í sveitarstjórnarmálum með hvaða hætti skipulagsmál geta snúið öllu á hvolf í sérhverju sveitarfélagi. Það er klárlega vegna þess að kynning og samráð við íbúa hefur ekki verið nógu snemma í ferlinu og þegar komið er að lokahnykknum áttar fólk sig fyrst á því hvert stefnir. Fólk er líka betur meðvitað um rétt sinn og betur meðvitað um umhverfi sitt og nánasta svæði. Það sem nefnt er í frumvarpinu í sambandi við samráð og kynningar er mjög af hinu góða. En ég vil taka undir með hv. 1. þm. Norðaust. að með því að sveitarfélögum er skylt að gera skipulagsáætlanir, eins og fram kemur í frumvarpinu, ætti að vera hægt að stytta ferlið a.m.k. hvað varðar deiliskipulagið og hugsanlega væri líka hægt að stytta ferlið í tengslum við aðalskipulag. Þessir hlutir taka oft og tíðum allt of langan tíma og með skyldum á hendur sveitarfélögum um kynningu í upphafi og samráð snemma í ferli tel ég að við ættum að geta stytt ferlið. Það er öllum til góðs.

Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði talað fyrir þessum frumvörpum öllum í einu, því að öll eru þau nátengd og snerta sömu þættina, að mestu leyti sveitarfélögin, þannig að hægt hefði verið að taka þau öll saman. Ég hefði líka kosið að ein stofnun væri yfir skipulags-, mannvirkja- og byggingarlögum. Þar sem Brunamálastofnun er lögð niður yrði þetta sett undir einn hatt og yrði þá frekar deildaskipt. Þetta eru svo nátengd verkefni að það væri a.m.k. í anda þess flokks sem ég stend fyrir að reyna að fá báknið burt þó að okkur hafi kannski ekki tekist það sem skyldi. En ég hefði kosið að þarna hefðum við sameinað þessar stofnanir (Gripið fram í.) hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, rétt til orða tekið, vegna þess hversu nánar þær verða ef af verður.

Ég vil jafnframt taka undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um menntunarkröfur skipulagsfulltrúa í 7. gr. Það sætir furðu hversu nákvæmar kröfur eru gerðar til skipulagsfulltrúa á meðan forstjóri Skipulagsstofnunar þarf eingöngu að hafa háskólamenntun á sviði skipulagsmála og gæti það verið frekar teygjanlegt ef út í það er farið. En starfsmaður sveitarfélags er nákvæmlega tilgreindur í 7. gr.

Mig langar að geyma mér landsskipulagsáætlun og taka fyrir svæðisskipulag. Í 22. gr. á bls. 10 er talað um að svæðisskipulag sé næstæðsta skipulagsstig. Landsskipulagsáætlun er hið æðsta miðað við frumvarpið, síðan kemur svæðisskipulagið, þar á eftir aðalskipulag o.s.frv. Það skýtur því skökku við í mínum huga að meðan þetta er röðunin er eingöngu gerð krafa um að svæðisskipulag sé á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ekki sé hægt að setja í lög að eitt skipulag sé öðru æðra ef sum landsvæði þurfa ekki að taka mið af svæðisskipulagi. Það er hægt að horfa til þess að Vesturlandið frá — við getum tekið Borgarfjörðinn allan ásamt Akranesi og öðru slíku, það er hægt að taka svæðisskipulag fyrir Vesturland, það er hægt fyrir Vestfirði, það má skoða hversu langt og hversu mörg sveitarfélög eiga að koma að svæðisskipulagi. En ég held að jafnræðisreglan sé einfaldlega brotin hvað varðar 22. gr. ef sum sveitarfélög þurfa að hlíta svæðisskipulagi en önnur ekki þannig að ég vek athygli á því misræmi sem mér þykir vera í þessu.

Ég vil jafnframt láta þess getið, hæstv. forseti, að ég hef átt mjög gagnlegan og góðan fund með hæstv. umhverfisráðherra og aðstoðarmanni hennar og var farið þar yfir ýmis mál. Ég verð að segja hæstv. umhverfisráðherra til hróss að hún er lipur í samskiptum á slíkum fundum og reiðubúin til að skoða alla þætti mála.

Síðan kemur, hæstv. forseti, það sem maður veltir fyrir sér varðandi Skipulagsstofnunina sem er eftirlitsaðili, leiðbeinandi, kemur að landsskipulagsáætlun, kemur næstum því að öllum ferlum, hvernig hún samhliða er eftirlitsaðili og sá aðili sem á að greiða úr ágreiningsmálum. Mér finnst vanta inn í frumvarpið svokallað kæruferli ágreiningsmála sem hægt er að finna í frumvarpi mannvirkjalaga frá hæstv. umhverfisráðherra. Ef sveitarstjórnir eru ósáttar við Skipulagsstofnun eða einstaka aðila sem kært hafa er þá kæruferli ágreiningsmála úr höndum Skipulagsstofnunar og í höndum hæstv. umhverfisráðherra? Það þarf að skoða.

Mig langar að nefna hér sérstaka og skondna nefnd í mínum huga, nefnd sem heitir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Það er mjög skýrt með hvaða hætti sú nefnd á að starfa. Það er hins vegar jafnljóst að sú nefnd starfar ekki, hefur ekki starfað og mun væntanlega ekki starfa samkvæmt þeim lögum sem hér liggja fyrir. Mér er kunnugt um að mál sem kært var til þeirrar ágætu nefndar í maí liggur enn fyrir hjá henni og hefur ekki verið svarað. Þegar ég var sveitarstjórnarmaður þurfti sveitarfélag mitt, sem þá var og er, Mosfellsbær, oft að bíða vikum og mánuðum saman eftir úrskurði frá þessari ágætu nefnd. Eins og allir vita er það stjórnvaldsákvörðun sveitarfélags sem kæra má til nefndarinnar og þá tekur við biðferli sem ég held að sé með öllu óásættanlegt fyrir öll sveitarfélög í landinu. Eigi þessi nefnd að starfa eins og greinir frá í X. kafla verður annað tveggja að fjölga í henni eða hafa fleiri nefndir. Það þarf með einhverjum hætti að auðvelda þessari nefnd eða þessum nefndum að starfa. Ég veit að það er andsnúið því sem ég talaði um, að sameina Skipulagsstofnun og Byggingarstofnun í eitt, að ætla að fjölga nefndum. En það er alveg ljóst í mínum huga að þessi nefnd hefur ekki getað sinnt þeim málum sem til hennar hafa verið send og væntanlega mun henni ekki vegna betur í framtíðinni þó ég ætli kannski ekki að dæma hana til dauða.

Þá kemur að því sem er með öllu nýtt í frumvarpinu, margumræddri landsskipulagsáætlun. Ljóst er að það sem stendur í III. kafla um landsskipulag mun kannski verða hvað torveldast í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég lít svo á að það þurfi að gera mun betur eigi sveitarfélög að geta sætt sig við landsskipulagsáætlun og þar með inngrip ríkisins með einum eða öðrum hætti. Hugmyndafræði að baki landsskipulaginu þarf þá að vera miklu klárari og ljósari. Það þarf að vera afmarkaðra til hvaða þátta landsskipulagsáætlun tekur. Þetta verður stóra málið að mínu mati í frumvarpinu vegna þess að öll „stór mál“, sem geta verið stór í einu sveitarfélagi en lítil í öðru, geta hugsanlega komið inn í landsskipulagið. Við erum að tala um þjóðgarða, sem flestir eru sjálfsagt sammála um, við erum að tala um virkjanir, við erum að tala um alls kyns stóriðju, við erum að tala um alls kyns verksmiðjur og slíkt sem eru stórmál í allri pólitískri umræðu. Þetta þarf að rekja enn frekar ætli menn sér að halda inni í landsskipulagsáætlun nákvæmari og skýrari hugmyndafræði sem að baki liggur.

Hæstv. forseti. Að mestu leyti fagna ég frumvarpinu. Ég tel að endurskoðun þeirra þriggja frumvarpa sem hér liggja fyrir frá hæstv. umhverfisráðherra sé þarft og gott innlegg í umræðuna. Fyrir það vil ég þakka.