135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni að halda að ég sé ósammála flestum í þinginu. Ég hef ekki sett fram neina skoðun á þessu frumvarpi og ekkert um það sagt. Ég hef ekki lýst mig sammála eða ósammála neinum sem hér hefur tekið til máls.

Það sem ég vakti athygli á er að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem er stjórnarliði og frumvarpið lagt fram í hennar umboði og með hennar samþykki, hefur tætt þetta stjórnarfrumvarp niður lið fyrir lið. Ég hlýt því að spyrja: Hvað líður stuðningi hv. þingmanns við þetta mál? Er flokkurinn, hún eða fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svo andvígir málinu að gera þurfi grein fyrir því í mörgum liðum hversu ómögulegt þetta frumvarp er? Mér finnst þá eitthverju vera áfátt í undirbúningi málsins. Stjórnarflokkarnir hafa undirbúið þetta mál sín í milli og ganga frá ágreiningsmálum og jafna þau áður en frumvarpið er flutt.

Hér segir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir í raun hið gagnstæða, að það hafi ekki verið gert. Ég átta mig því eiginlega ekki á því hvernig stjórnarsamstarfið gengur fyrir sig. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst þetta mjög einkennileg vinna.

Það væri, held ég, til bóta ef þingmaðurinn útskýrði hvað hún á við með því að landsskipulagsáætlun þurfi að hafa skýrari hugmyndafræði. Ég er engu nær um afstöðu þingmannsins eða gagnrýni á frumvarpið eftir þau orð annað en að mér er ljóst að þingmaðurinn er ósammála frumvarpinu í þessu stóra og veigamikla atriði.