135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:25]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli vera ósáttur við að þingmenn fari hér lið fyrir lið yfir mál sem er jafnmikilvægt og frumvarp til skipulagslaga. Hann ákveður að túlka þá yfirferð með þeim hætti að ég sé á móti frumvarpinu og veltir því fyrir sér hvernig samkomulagið á stjórnarheimilinu sé.

Ég bendi, hæstv. forseti, á að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingmenn Samfylkingarinnar í stjórnarliðinu hafa farið yfir þetta frumvarp. Þeim, ásamt öðrum þingmönnum, ber síðan að fara enn frekar yfir frumvarpið.

Ég styð marga þætti þessa frumvarps en ég geld varhuga við landsskipulagsáætlun vegna þess að ég tel hana, eins og hún er sett fram, of bindandi fyrir sveitarfélögin. Ég tel mér skylt og rétt sem þingmanni að fara yfir þau atriði sem ég tel betur mega fara. Ég hef einnig gert það í samtölum við hæstv. umhverfisráðherra og tel það fráleitt að túlka orð mín svo ég sé andsnúin þessu frumvarpi eða stjórnarliðar almennt.

Við viljum hins vegar að vel sé vandað til verka. Það má gera betur og það þarf að fara betur yfir málið. Ég benti á það í ræðu minni og mun halda áfram að gera þar til ég er tiltölulega sátt við það frumvarp sem á endanum verður samþykkt á Alþingi.