135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[18:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir sem er að mörgu leyti gott frumvarp. En í því er eitt atriði sem ég vil sérstaklega gera athugasemdir við. Ég hef áður gert ráðherra og þeim sem komu að þessari vinnu grein fyrir athugasemdum mínum þar að lútandi. Það snýr að nokkrum greinum frumvarpsins þar sem talað er um björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði.

Við höfum í mörg ár búið við ákveðið skipulag björgunarmála á Íslandi og þar hafa slökkvilið landsins klárlega stórt hlutverk. Í gangi hefur verið ákveðin verkaskipting milli þessara aðila þegar unnið er í hinum mismunandi verkefnum og ég vildi koma því að en í greinargerð með þessu frumvarpi er talað um að í langan tíma hafi flest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu, þ.e. björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum. En það er það ekki alls kostar rétt. Það hefur þróast með þeim hætti að björgun á fastklemmdu fólki úr farartækjum hefur í flestum tilfellum verið verkefni slökkviliða landsins. Þó eru undantekningar á því en ég er sammála því að binda í lög að þetta verði lögbundið verkefni þessara aðila. Ég tel það eðlilegt að þegar er að ræða umferðarslys eða flugslys eða önnur slys með farartækjum þar sem þau skemmast það mikið að fólk er fast í þeim og þarf að beita klippivinnu, þá sé það lögbundið hlutverk slökkviliða að sjá um það verkefni.

Þetta hefur þróunin verið, eins og ég segi. Þetta hefur á flestum stöðum verið á könnu slökkviliða. Sums staðar hafa björgunarsveitir reyndar séð um þetta og kaup á búnaði. En víða úti á landi er það sama fólkið sem sinnir þessum störfum á hinum fámennari stöðum þótt á höfuðborgarsvæðinu og svona fjölmennari stöðum komi hópur fólks að verkefninu.

Þegar kemur að vinnu við björgun úr mannvirkjum, svokallaðri rústabjörgun, er um allt annan búnað, allt aðra tækni og allt aðra þjálfun að ræða en almennt er miðað við þegar fólk er klippt úr flökum. Oft þarf líka að vera að leita að fólki í rústum. Það liggur ekki fyrir hvar sá er sem leitað er að þegar bygging er hrunin eða löskuð eftir snjóflóð eða aurflóð eða byggingar hafa laskast af öðrum ástæðum eða hrunið. Það er mjög sérhæfð tækni sem og viðkvæm sem þarf til þess að leita í rústum. Það krefst mikillar þjálfunar og til þess er notaður sérhæfður búnaður, sérstakar rústamyndavélar og hlerunar- eða hlustunarbúnaður sem notaður er til að finna merki frá fólki o.s.frv. Mér er ekki kunnugt um og reyndar er ég klár á því að það er ekkert slökkvilið í landinu sem á þennan búnað eða hefur hann til umráða.

Síðan kemur til alls konar búnaður til björgunar á fólki og vinnu við að ná því úr rústum sem er að hluta til til hjá slökkviliðunum en að hluta alls ekki. Sá þáttur björgunarstarfa hefur fyrst og fremst legið hjá björgunarsveitum slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem hafa á sínum vegum sérstaka rústabjörgunarhópa og hafa með þeim hópum búið til það sem við köllum rústabjörgunarsveit félagsins sem t.d. hefur verið send til verkefna á vegum íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi.

Ég tek þetta upp hér þar sem ég tel algjörlega óhæft að lögbinda þetta hlutverk hjá slökkviliðunum. Það hefur vissulega verið ákveðið samstarf á milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og rústasveitar slysavarnarfélagsins Landsbjargar en það hefur fyrst og fremst falist í að þeir hafa mannað ákveðnar stöður bráðatækna til að vera til staðar til að veita fyrstu hjálp og hlúa að björgunarmönnum og hugsanlega þeim fórnarlömbum sem finnast. Einnig hefur verið lánaður búnaður frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að til að fara í þessi útköll og við þær æfingar sem um er að ræða.

Slysavarnarfélagið hefur komið sér upp mikilli og góðri aðstöðu til þjálfunar og æfinga á Gufuskálum á Snæfellsnesi til að æfa þennan þátt björgunarstarfa. Ég held að vandfundin sé, þótt víðar væri leitað og þá í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við, betri aðstaða en við höfum á Gufuskálum. Aðstaðan er svo góð að það er ekki langt síðan að Belgar fengu teikningar frá félaginu til að þjálfa og æfa sína rústabjörgunarsveit og koma upp æfingaraðstöðu í Belgíu. Þeir kalla sína björgunarstöð Gufuskála.

Félagið og félagar þess vinna sín störf í sjálfboðavinnu en af fullum aga og fagmennsku og uppfylla fyllilega allar þær kröfur sem á alþjóðavísu eru settar til slíkra sveita. Því er ekki að neita að mjög sterkar hugmyndir hafa verið uppi, sérstaklega hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, um að efla þennan þátt í sínu starfi, eins og það hefur reyndar gert í björgunarmálum á mjög breiðum vettvangi. Það getur verið af hinu góða og í mörgum tilfellum er það svo. En það verður að gæta að því að við höfum ákveðna verkaskiptingu á þessum hlutum og það er ekki sjálfsagt að þau verkefni gangi á milli aðila. Við verðum að huga að því ef við ætlum ekki að fara út í það í framtíðinni að manna þetta björgunarstarf okkar algjörlega með atvinnumönnum, sem ég tel reyndar ómögulegt í þessu landi, þá verður að hafa í huga þau verkefni og þær skyldur sem hvíla á björgunarsamtökum og rýra ekki þeirra starfsgrundvöll.

Ég sagt það, virðulegi forseti, að mér er ekki kunnugt um að nokkur önnur slökkvilið á landinu en þau sem eru staðsett í næsta nágrenni við Gufuskálar hafi nokkru sinni nýtt sér þá aðstöðu sem er á Gufuskálum til þjálfunar og æfinga fyrir mannskap sinn á þessum vettvangi þrátt fyrir að það hafi staðið til boða í nokkur ár. Að þessu sögðu þá tel ég að ná þurfi samkomulagi á milli aðila og að þær greinar sem innihalda þann texta að það skuli vera lögbundið hlutverk slökkviliða að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum verði teknar úr þessum lögum og þetta verkefni verði eftir sem áður á ábyrgð björgunarsveita. Það hefur a.m.k. enginn komið fram með þá gagnrýni að þær séu ekki til þess bærar að sinna þessu og aðrir geti gert það betur. Á meðan að svo er tel ég verkefninu sé best fyrir komið á þeim bæ og við ættum ekki að rýra starfsgrundvöll þessara sveita.

Við ættum að horfa til þess að byggja frekar í framtíðinni upp þetta sjálfboðaliðastarf. Það er ómetanlegt fyrir þessa þjóð að geta gengið að svo breiðum hópi karla og kvenna sem skipa sér í þessar stöður. Í seinni tíð höfum við orðið vör við mikilvægi þess að hafa þetta fólk í góðri þjálfun og hafa það til staðar, einmitt á undanförnum vikum og mánuðum og kannski einmitt í verkefnum sem tengjast rústabjörgun. Þetta eru náskyld verkefni, öll þessi óveðursútköll og björgun mannvirkja og verðmæta sem þeim tengist eru náskyld því að bjarga fólki úr rústum. Þetta er að mörgu leyti sami búnaðurinn og sama þjálfunin og unnið við byggingar og tæki sem eru löskuð og þarf að gæta allrar varúðar.

Við höfum séð á prenti hugmyndir frá forsvarsmönnum slökkviliða í landinu, um að sameina slökkviliðin frá Borgarfirði og austur í Rangárvallasýslu. Þar er talað um björgunarlið Suðvesturlands. Þá eru Suðurnesin innifalin. Þetta geta verið ágætar hugmyndir og er sjálfsagt að ræða allar hugmyndir en það verður að gæta að því starfi sem fyrir hendi er og að því að kippa ekki starfsgrundvellinum undan þeim sveitum sem gegna þegar mikilvægu hlutverki.

Það verður að segjast að samstarfsáhugi forsvarsmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur verið ákaflega takmarkaður þegar kemur að samstarfi við björgunarsveitir á svæðinu. Vil ég t.d. nefna í því sambandi að þrátt fyrir ítrekaðar hugmyndir af hálfu undirritaðs og fleiri til forsvarsmanna slökkviliðsins í gegnum árin hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ekki séð ástæðu til að þjálfa varalið sem gæti komið þeim til aðstoðar á hættustundu, þegar um stórbruna er að ræða eða aðra vá sem þeir sinna, til að vera þeim til aðstoðar, geta gengið í þau verk sem þarf að sinna og hafa hlotið þá þjálfun sem til þarf.

Það segir sína sögu þegar menn sjá ekki ástæðu til þess, sérstaklega í ljósi þess að upp hafa komið atvik þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur þurft á björgunarsveitunum að halda. Nefna mætti stórbruna eins og Hringrásarbrunann, sinuelda sem hafa komið upp tíðum á vorin. Þá eru kallaðar út björgunarsveitir til þess að aðstoða. Þá kemur það fólk í sínum göllum og skóm, engan veginn búið til að eiga við þau verkefni en ganga í þau samt til að gera sitt besta.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég geri mér vonir um að umhverfisnefnd taki þetta til sérstakrar skoðunar þegar um þetta verður fjallað. Ég geri mér vonir um að fullt tillit verði tekið til þeirra sem hér er talað um að færa verkefni frá þannig að um þetta náist sem víðtækust sátt.