135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[18:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að bregðast við ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Þannig er að það er með engum hætti verið að leggja til í þessu frumvarpi að taka verkefni frá einhverjum. Hér er einungis verið að skýra björgun á fastklemmdu fólki þegar slökkvilið er annars vegar, ekki lagt til að draga úr, minnka eða gera lítið úr hlutverki björgunarsveita í björgunaraðgerðum, rústabjörgun eða öðru.

Þetta er mál sem hefur í þessu samhengi beðið úrlausnar um nokkra hríð. En ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það getur þurft að skýra málið betur í frumvarpstextanum þannig að enginn sé í vafa um hvað er á ferðinni.

En ekkert er fjær mér, frú forseti, en að taka verkefni frá björgunarsveitum eða koma málum þannig fyrir að það dragi úr starfi eða þrótti björgunarsveita í landinu.