135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[14:13]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur farið fram áhugaverð umræða um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þó að áherslur sem lagðar hafa verið af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi verið nokkuð mismunandi. Það kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að honum fundust berin súr sem verið væri að framreiða hér af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vil segja það við hv. þingmann að berin eru ekkert súr en sumir þingmenn velja sér það hlutskipti að plokka alltaf úr súru berin ef þeir geta orðið sér úti um þau. Það er auðvitað sjálfskaparvíti. En á hitt ber að líta í þessu sambandi, sem kom reyndar fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hér er verið að gera kjarasamninga og í tengslum við þá er yfirlýsing frá ríkisstjórninni sem menn hefur dreymt um í áratugi, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Ég hygg að það sé alveg rétt að þeir kjarasamningar sem hér hafa verið gerðir séu tímamótasamningar, þetta eru samningar sem fela í sér meiri jöfnuð en við höfum séð í langan tíma í kjarasamningum og þeir sem hafa staðið að þeim eiga heiður skilið fyrir það.

ASÍ kom til ríkisstjórnarinnar í desember og lagði fram tillögur sínar um það hvernig þeir vildu að á málum væri tekið núna í tengslum við gerð kjarasamninga. Þeir voru með útfærslu í skattamálum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndra, hefur gert að umtalsefni og taldi að við ættum frekar að fara þá leið. Við töldum þá að ekki yrði sátt í samfélaginu um að fara þá leið eins og málum var háttað. Þess vegna var valin sú leið sem hér hefur verið kynnt, að hækka persónuafsláttinn, hækka skattleysismörkin úr 95 þúsund kr. í 115 þús. kr., um 20%, á næsta ári og því þar næsta sem er auðvitað veruleg breyting frá því sem verið hefur. Það er verið að lyfta skattleysismörkunum. Það er verið að gera mest fyrir þá sem lægst hafa launin í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar rétt eins og í kjarasamningunum. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er verið að gera mest fyrir þá sem hafa lægstu launin. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er líka verið að bæta verulega stöðu barnafjölskyldna í landinu og það er ekkert lítið, þegar tekjumörkin þar sem byrjað er að skerða barnabæturnar eru hækkuð hjá einstæðu foreldri úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr., hjá hjónum úr 200 þús. kr. í 300 þús. kr., þetta er 50% hækkun á þeim mörkum sem notuð eru þegar til tekjutengingar kemur. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir allt launafólk í landinu og fjölskyldufólk.

Það er líka mjög mikilvægt sem verið er að gera varðandi vaxtabæturnar, að lyfta tekjutengingunni þar um 35% og það kemur til framkvæmda strax. Þetta eru gríðarlega mikilvægar umbætur sem hér er verið að ráðast í ásamt með öllu hinu. Ég vil líka nefna sérstaklega í því sambandi, af því að talað var um stimpilgjöldin, að það er verið að fella niður stimpilgjöld á fasteignaviðskiptum hjá fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er verið að stíga fyrsta skrefið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og það er auðvitað búið að gera núna gríðarlega margt af því sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samþykkt hefur verið aðgerðaáætlun vegna málefna barna. Samþykktar hafa verið verulegar aðgerðir í byggðamálum þar sem er verið að hreyfa um 12,5 milljarða. Komið hefur verið fram með yfirlýsingu í þágu aldraðra og öryrkja og frumvarp sem mun lögfesta þær umbætur allar, það kemur væntanlega fram í þinginu í þessari viku. Og svo þetta núna. Ætli það sé ekki búið að koma af stað og í framkvæmd um 80% af því sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á níu mánuðum og geri aðrir betur. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin hefur staðið við fyrirheit sín eins og þau eru gefin í stjórnarsáttmálanum og gert það hratt og vel.

ASÍ gaf frá sér yfirlýsingu í desember og kallaði eftir því að gerður yrði sáttmáli um efnahagslegt jafnvægi og félagslegt réttlæti, eins og það hét hjá ASÍ í desember. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera núna, að gera sáttmála um efnahagslegt jafnvægi og félagslegt réttlæti. Það er verið að gera hér sáttmála um jöfnuð og jafnvægi og það er auðvitað alveg í samræmi við það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum þar sem segir að ríkisstjórnin muni vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að ríkisstjórnin útfæri stjórnarsáttmála sinn, tímasetji aðgerðir, umfang aðgerðanna, í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins eins og gert hefur verið í þessum kjarasamningum.

Auðvitað er það ekki svo að ekki sé hægt að gera meira í ýmsum umbótamálum. Það er alltaf hægt að gera betur og auðvitað er það alveg rétt sem hér hefur komið fram að enn þá eru lægstu laun fyrir neðan þau mörk sem við vildum öll sjá þau. Við vildum öll sjá lægstu launin hærri en þau eru núna, þau eru fyrir neðan þau viðmiðunarmörk sem við teljum eðlileg. Það verður ekki komið á algeru réttlæti í einu vetfangi, það þarf að vinna sig inn í það að auka sanngirni og réttlæti í samfélaginu. Umbótum er aldrei lokið og það verður að sjálfsögðu unnið að þeim áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar í samræmi við stjórnarsáttmálann og þær aðgerðir sem þar eru gefin fyrirheit um. En það hefur verið gert gríðarlega mikið á þessum fyrstu níu mánuðum, miklu hefur verið komið í verk sem lýtur ekki síst að því að bæta stöðu og kjör þeirra sem lægst eru launaðir í samfélaginu. (Gripið fram í.) Þessir kjarasamningar sýna mikla samstöðu og þeir sýna mikinn aga hjá launafólki, þeir sýna að heildarhagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni. Þessir kjarasamningar eru í þágu láglaunafólks og taxtavinnufólks og þar af leiðandi eru þeir í þágu kvenna og landsbyggðarfólks sem hefur síður notið þess launaskriðs sem hefur verið á vinnumarkaði á undanförnum mánuðum og missirum. Og ég ítreka það sem ég sagði áðan og endurtek það að þeir sem fóru fyrir þessari samningagerð eiga heiður skilið fyrir að hafa leyst þetta mál svona farsællega af hendi.