135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

yfirlýsing ráðherra.

[14:26]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fór fram afar mikilvæg umræða um aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og hver hún er. Umræðan gekk út á það að forsætisráðherra kæmi fram og gæfi yfirlýsingu og síðan færi fram umræða um þá yfirlýsingu. Ýmsum spurningum var beint að ríkisstjórninni og hæstv. utanríkisráðherra kom svo og brást við. Meðal annars lagði hv. þm. Guðni Ágústsson fram nokkrar spurningar sem reynt var að bregðast við. Hver og einn talaði einu sinni og þetta var í þágu umræðunnar. Og mér fannst satt best að segja fyrir neðan allar hellur þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson kom upp með þá orðræðu sem hann var með áðan og ekki aðeins það heldur einnig hitt að hv. þingmaður fer upp undir liðnum um fundarstjórn en hefur efnisumræðuna með gagnrýni á þá umræðu sem var nýlokið. Mér þótti þetta afar athyglisvert og ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að þetta er ekki til þess að efla virðingu þingsins.