135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

vinna barna og unglinga.

[14:32]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra sérstaklega fyrir þetta svar, ég skynja það sem svo að hæstv. ráðherra ætli að láta skoða þetta mál. Fyrir tveimur árum voru rúm 18% 12–15 ára barna á vinnumarkaði og um 63% 16–19 ára barna. Þetta er fyrir tveimur árum. Þó að ég hafi ekki skoðað það vísindalega tel ég að þessar tölur séu líklega mun hærri í dag af því að það vantar svo margt fólk til starfa. Það er skiljanlegt að börn vilji taka þátt í atvinnulífinu og afla sér tekna en á sama tíma verðum við að gæta réttinda þeirra.

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að skoða þurfi þessi mál sérstaklega vegna þess þrýstings sem er frá atvinnulífinu. Við þurfum að verja börnin þó að við viljum líka hvetja þau til að vinna — ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki á móti því að börnin vinni, en það verður að gæta hófs. Ég fagna því að ráðherrann ætlar að láta skoða þetta sérstaklega í tilefni af fyrirspurninni.