135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

útgjöld til menntamála og laun kennara.

[14:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þetta eru afar athyglisverðar upplýsingar sem koma fram hjá hv. þingmanni og sjálfsagt að skoða þær og hugsanlegt að þær séu innlegg í þá umræðu sem fram mun fara þegar kjarasamningar við kennara verða lausir. Þeir eru nú ekki enn lausir og ég held að það sé ekki mjög skynsamlegt af viðsemjanda í minni stöðu að vera að tjá sig mikið um það opinberlega áður en samningar hafa hafist. Ég hef sagt það áður og mun endurtaka það núna, og ég geri síðan ráð fyrir því að ég þurfi að gera það nokkrum sinnum á næsta mánuði, að kjarasamningar og deilur í kringum þá verða ekki leystir úr ræðustól á Alþingi.