135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:02]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum framtíðarstuðning stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað er nauðsynlegt að við áttum okkur á því í hverju núverandi stuðningur er fólginn. Í raun er hér um að ræða tvíþættan stuðning, annars vegar innflutningsvernd sem flestar greinar landbúnaðar njóta en í mismiklum mæli þó. Hins vegar er um að ræða beina styrki sem eru bundnir við mjólkurframleiðslu, sauðfjárframleiðslu, lítils háttar við nautakjötsframleiðslu, þ.e. hinar svokölluðu gripagreiðslur, og vissar gróðurhúsaafurðir. Auk þessa er stuðningur við ráðgjafarþjónustu, búfjárrækt og þróunarverkefni samkvæmt búnaðarlögum sem allar greinar landbúnaðar njóta að einhverju marki.

Stuðningur innan lands við landbúnaðinn er háður reglum WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þannig hefur það verið frá 1995 og það á bæði við um innflutningsverndina og beingreiðslurnar. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að við erum hér með stuðning sem tekur mið af reglum WTO. Þegar og ef nýr samningur næst innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er ljóst að möguleikar til að styðja íslenskan landbúnað, bæði með tollvernd og beingreiðslum, verða enn skertir. Fyrir liggur að útflutningsbætur verða aflagðar en þeim hefur að vísu ekki verið beitt hér síðan árið 1992.

Ég hef sagt að við hljótum í framtíðinni að taka mjög mið af því sem mun gerast á alþjóðlegum vettvangi. Enginn vafi leikur á því að innflutningsverndin mun minnka og líklegt er að breyta verði fyrirkomulagi stuðningsgreiðslna þegar og ef niðurstaða fæst í viðræður WTO. Nú er stuðningur við mjólkurframleiðsluna að mestu bundinn við framleiðslu og tengdur kvóta. Hvað sauðfjárbúskapinn varðar er fyrirkomulagið flóknara. Þar er enginn framleiðslukvóti og allir framleiðendur hafa jafnan rétt til innleggs afurða. Um það bil 75% af beingreiðslunum eru greiddar út á greiðslumark en fjórðungur miðast síðan beint við framleiðslumagnið.

Kröfur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hníga í þá átt að hverfa sem mest frá framleiðslutengdum greiðslum sem teljast vera markaðstruflandi en beita frekar svokölluðum grænum greiðslum, þ.e. stuðningi sem er ekki tengdur framleiðslu en miðast við að uppfylla tilteknar kröfur um dýravernd, skýrsluhald til að halda utan um rekjanleika, heilnæma framleiðsluhætti, umhverfisvernd o.s.frv.

Ég átti fyrir skömmu þess kost að ræða við frú Mariann Fischer Boel sem fer með landbúnaðarmál innan Evrópusambandsins og enn fremur við svissneska landbúnaðarráðherrann. Það er athyglisvert að bæði evrópski landbúnaðarráðherrann og sá svissneski töluðu um að á þeim vettvangi hafi þessu stuðningskerfi við landbúnaðinn þegar verið breytt í átt til þess sem menn telja að þróunin verði á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að skoða málið í því samhengi þegar við horfum til framtíðar. Það er ljóst að ef og þegar þessi samningur kemst á munum við Íslendingar verða aðilar að honum. Við verðum þess vegna að horfa til þess með hvaða hætti við þróum íslenskan landbúnað til að hann standist kröfur þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar verða á alþjóðaviðskiptaumhverfinu.

Við höfum litið svo á að framleiðslutengdur stuðningur sé beinskeyttastur og í rauninni árangursríkastur fyrir hefðbundinn landbúnað, líka með þeim hætti að hann nýtist jafnframt best neytendum í lægra afurðaverði. Það getur hins vegar verið nauðsynlegt að breyta þessu og greiða hluta stuðningsins á öðrum forsendum og mega setja þau skilyrði fyrir greiðslunum að þær nýtist til þess að treysta afkomu og búsetu í sveitum. Þrátt fyrir þetta vil ég taka fram að það er mjög mikilvægt að styrkja hefðbundnu framleiðsluna beint vegna þess hve framleiðslukostnaðurinn er hár til þess að framleiðsluhvatinn falli ekki alveg niður því að þessi framleiðsla er í rauninni hryggsúlan í dreifðustu byggðum landsins.

Stuðningur við landbúnaðinn er óhjákvæmilegur enda dettur engri nálægri þjóð í hug að leggja hann niður. Það er þó óhjákvæmilegt að við tökum þátt í þeirri alþjóðlegu þróun sem nú er og ég hef þegar gert að umræðuefni. Núgildandi samningar um mjólkur- og sauðfjárframleiðslu eru til ársins 2012 og 2013 og litlar líkur eru á að alþjóðareglur breytist fyrir þann tíma þannig að hrófla þurfi við þessum samningum og auðvitað verður staðið við þá. Það er hins vegar tímabært að huga að og undirbúa hvað taki við að þeim tíma liðnum. Við hljótum í því sambandi að skoða þær breytingar sem orðið hafa og eru að mótast í Evrópu og athuga hvort ekki geti verið skynsamlegt að stíga einhver skref í þessa átt.

Á málþingi sem kúabændur efndu til fyrir skömmu og hv. þingmaður nefndi, hreyfði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þeirri hugmynd — ekki tillögu — sem fól í sér að ríkið greiddi mjólkurframleiðendum greiðslumarkið í eitt skipti fyrir öll og þar með yrði ekki um frekari beingreiðslur til þeirra að ræða. Ég brást við þessu þannig að ég sagði líkt og forustumenn bænda að þetta væri hugmynd sem að sjálfsögðu er þess virði að skoða. En ég tel að á henni séu mjög mörg tormerki eins og ég hef þegar nefnt. Hef ég þá fyrst og fremst litið til framtíðar í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við eigum að hyggja að því í tæka tíð hvernig við högum framtíðarstuðningi okkar við landbúnaðinn þannig að hann verði eftir sem áður burðarsúla í (Forseti hringir.) byggðum landsins, öflug atvinnugrein sem þjónar íslenskum neytendum og framleiðendum.