135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í sjálfbærri atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er landbúnaðurinn einn af máttarstólpunum. Hann er einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og við verðum að horfa til hans með framtíðina í huga.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ný störf og sjálfbær þróun haldast í hendur. Á staðardagskrárráðstefnu í Hveragerði fyrir rúmri viku kom það í ljós. Þar talaði m.a. Árni Jósteinsson sem er sérfræðingur hjá Bændasamtökunum. Hann sagði að sjálfbær þróun væri eitt af beittustu vopnunum sem við hefðum gagnvart þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir, bæði samfélags- og umhverfistengdum. Ég er sammála honum.

Hann talaði um hlýnun lofthjúpsins, um losun gróðurhúsalofttegunda, um hnignun landgæða og fleira í þeim dúr. Þá koma upp í hugann þær hugmyndir sem við vinstri græn höfðum varðandi lífrænan landbúnað. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með svar hæstv. landbúnaðarráðherra á þskj. 307 á þessu þingi. Hv. þm. Þuríður Backman spurði hann út í möguleikann á því að ríkisstjórnin mundi sérstaklega styðja við lífrænan landbúnað. Í svari ráðherra koma fram bæði fordómar og heimóttarskapur.

Við stöndum frammi fyrir straumhvörfum í landbúnaði vegna hækkunar á orkuverði og þar af leiðandi áburðarverði. Ég bendi á að lífrænir bændur nota ekki kemískan áburð. Þeir þurfa ekki eiturefni í framleiðslu sína. Þar af leiðandi eru lífrænir bændur þeir sem á að leggja sérstaklega lið hvað opinberan stuðning varðar. Í lífrænum landbúnaði eru ekki notaðar erfðabreyttar lífverur. Hvað vilja neytendur í dag? Neytendur vilja lífræna framleiðslu. Við lendum í því að fá innflutta lífræna framleiðslu og missa þar með störf til útlanda sem við gætum búið til hér heima.