135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:52]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi viðbrögð og þær spurningar sem hann ber hér fram. Ég get fúslega upplýst að við höfum ekki reynt að kostnaðarmeta þær breytingar sem nákvæmlega samþykkt þessa frumvarps hefði í för með sér frekar en það var gert í aðdraganda síðustu kosninga og þeir stjórnmálaflokkar sem höfðu það mál á stefnuskrá sinni settu ekki fram neinar sérstakar tölur í því efni. Svarið við þeirri spurningu er því nei, við höfum ekki kostnaðarmetið þær breytingar sem við leggjum hér til. Við teljum að hér sé um að ræða gríðarlega mikið jafnréttismál, við teljum að það sé mjög þýðingarmikið að allir hafi aðgang að þessari menntun og hún eigi að standa öllum til boða þeim að kostnaðarlausu.

Hvað varðar einkareknu skólana þá erum við auðvitað að tala um breytingar á framhaldsskólalögunum. Við vitum að í skólakerfinu eru einkareknir skólar í dag, bæði á leikskólastigi, grunnskólastigi, og háskólastigi, þar sem viðgengst önnur gjaldtaka en í almenna skólakerfinu, t.d. er öðruvísi gjaldtaka í einkareknu leikskólunum yfirleitt en hjá hinu opinbera.

Okkar prinsippafstaða er að sjálfsögðu sú að þessi menntun eigi að standa öllum til boða án endurgjalds. Það er afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar tekur fyrst og fremst á því sem framhaldsskólalögin ná til í þessu sambandi.