135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:59]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki betur séð af þessu stutta andsvari en að við séum algjörlega sammála og þær tillögur sem eru í framhaldsskólafrumvarpinu og í stefnuyfirlýsingunni gangi algjörlega með því sem hér kemur fram. Útfærslan er eftir, hún er praktískt vandamál. Ég treysti á að það frumvarp sem hér liggur fyrir fari fyrir menntamálanefnd og komi þar til umræðu í tengslum við framhaldsskólafrumvarpið og hljóti afgreiðslu eins og aðrar hugmyndir sem þar eru uppi, sem eru fyrst og fremst útfærslur á því með hvaða hætti við getum hagað gjaldtöku í framhaldsskólum, þ.e. að stefnt sé að því að framhaldsskólinn verði gjaldfrjáls.

Eins og ýmsar tillögur sem komið hafa fram í þinginu og eru fluttar til þess að ítreka ýmis stefnumál, m.a. Samfylkingarinnar, og er hið besta mál að fá inn í þingið, þá fer þetta mál bara í það ferli að verða leyst af menntamálanefnd og ríkisstjórn. Ég sé ekki að við eigum í nokkrum vandræðum með að uppfylla þessar kröfur miðað við skilgreiningu hv. þm. Árna Þór Sigurðssonar.