135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um framhaldsskólann og óska hv. þingmanni til hamingju með jómfrúrræðuna. Hún var góð og gild og í henni komu fram athyglisverðir punktar sem ég vil taka undir. Ég held að við þurfum að huga að öðrum þáttum áður en við förum að greiða algjörlega niður kostnað hvað varðar námsgögn — ég kem reyndar að því á eftir. Ég tel mikilvægt að við hlúum að því, og það höfum við verið að gera á undanförnum missirum, að auka aðgengi að framhaldsskólamenntun í heimabyggð. Það höfum við verið að gera á undanförnum árum og það eru hlutir sem skipta okkur mjög miklu máli.

Við erum með tilraun í gangi, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum varðandi framhaldsskóladeildina á Patró, þar sem verið er að veita fólki fram til 18 ára aldurs tækifæri til að stunda framhaldsskólanám í heimabyggð í samvinnu við skóla sem þegar er kominn með nokkra reynslu. Það er líka nokkuð sérstakur skóli sem hefur fetað inn á nýjar brautir en það er Fjölbrautaskóli Snæfellinga á norðanverðu nesinu. Þar höfum við í rauninni breytt samfélaginu með því að stofna framhaldsskóla. Við gerðum ráð fyrir 130 nemum í byrjun en þar eru nú um 260–270 manns, sem sýnir að við sinnum vel þörf fólks á svæðinu hvað snertir framhaldsskólamenntun. Ég held að það sé brýnt og mikilvægt.

Ég vil engu að síður undirstrika það sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á hér áðan. Það er alveg ljóst að við ætlum að lækka kostnað framhaldsskólanemenda varðandi námsgögn. Það er alveg skýrt. Þau mál eru í vinnslu. Við erum hins vegar að fara yfir hinar tæknilegu leiðir. Hvaða leið eigum við að fara? Eigum við að taka þetta í gegnum reiknilíkanið? En þetta munum við gera. Markmiðið er að lækka kostnað framhaldsskólanemenda varðandi námsgögnin.

Ég vil líka geta þess að kveðið er á um það í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi kjarasamningana, sem tókust um helgina, að í samræmi við boðaða stefnu ríkisstjórnar í tengslum við framlagningu frumvarpanna, sem hafa verið títtnefnd hér, um framhaldsskólana, verði skrásetningar- og efnisgjöld óveruleg og haldið í algeru lágmarki. Það er ljóst að innritunargjöldin eru frekar lág og ætlunin er að fara vel yfir þessa þætti og reyna að halda þessum kostnaði í lágmarki til að stuðla áfram að jöfnum tækifærum til náms.

Ég vara við því að fara að tala hér um gjaldfrjálsan framhaldsskóla, það eigum við að mínu mati ekki að ræða um. Það er ákveðinn kostnaður sem fellur til en þeim kostnaði höldum við í algeru lágmarki með þeim aðgerðum sem við munum grípa til í kjölfar kjarasamninga og í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. — Af því að þingmaður Mosfellinga er nú í salnum er ánægjulegt að geta borið fram hamingjuóskir með stórt skref sem stigið var í framhaldsskólamálum í Mosfellsbæ í morgun. Ég og bæjarstjóri rituðum undir það að við ætluðum að opna framhaldsskóla í Mosfellsbæ haustið 2009.

Þetta er allt táknræn mynd þess að við erum að reyna að færa námið eins nálægt fólki í heimabyggð og kostur er. En við hljótum að skoða ákveðna þætti. Ekki er hægt að slíta rekstrarlegar forsendur úr samhengi við faglegar forsendur skólastarfs. Ég setti því á sínum tíma af stað hóp sem skoðaði það hvar hugsanlega væri hægt að halda uppi nokkuð öflugu skólastarfi með tilliti til þeirra reiknislegu og fjárhagslegu forsendna sem þurfa að vera til staðar til að reka framhaldsskóla.

Allir í þessum sal vita að við erum að huga að framkvæmd og undirbúningi að framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Við erum að athuga með Suðurland, hvort hugsanlega er hægt að tengja framhaldsskólastarf í Rangárvallasýslu við framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Við reynum að líta vítt og breitt yfir sviðið og sjá hvaða möguleika við getum skapað til að fjölga tækifærum fólks til að krækja sér í framhaldsskólamenntun.

En okkur hefur líka tekist á undanförnum missirum — og það má í rauninni benda á að ekki er skólaskylda í framhaldsskóla eins og menn vita. Við erum að breyta því núna með mjög táknrænum hætti. Við erum að færa okkur yfir í fræðsluskyldu fram til 18 ára aldurs sem segir að ríkisvaldið verður að vera reiðubúið að taka við öllum þeim sem kjósa að fara í framhaldsskóla. En engu að síður fara um 97% af útskriftarárgöngunum í grunnskóla í framhaldsskóla. Það er mjög hátt hlutfall sem fer beint í framhaldsskóla.

Viðfangsefnið núna, og m.a. er verið að taka á því í framhaldsskólanum, er að reyna að minnka brottfall. Það gerum við með því að efla iðn- og starfsnám, með því að fjölga námsleiðum, með því að bæta inn framhaldsskólaprófinu og m.a. að skoða líka, eins og við höfum verið að tala um hér, að lækka námskostnaðinn í framhaldsskólanum. Allt er þetta liður í því að við ætlum okkur markvisst að minnka brottfallið á framhaldsskólastigi. Við viljum halda fólkinu í skólanum til þess að það öðlist enn frekari færni og reynslu til að takast á við lífið og tilveruna. Það er ágætt að fá þetta tækifæri til að ræða frumvarpið, við erum að vinna að ýmsu sem þar er nefnt en ég er ekki sammála þeirri nálgun sem sett er fram í því.