135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það voru haldnar tvær dálítið ólíkar ræður á undan mér. Annars vegar talaði hv. þm. Huld Aðalbjarnardóttir og vakti máls á því, sem er fullgilt, að það er auðvitað fleira sem skiptir miklu máli í sambandi við jafnrétti til náms en kostnaður sem er heimfærður undir bókakostnað eða námsgögn, innritunar- og efnisgjöld. Það misrétti sem fólgið er í mismunandi aðstöðu manna eftir búsetu til að sækja sér framhaldsmenntun er vel þekkt og ber iðulega á góma hér. Um það hafa verið fluttar margar tillögur undanfarin ár, m.a. af okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að taka á þeim málum. Við nálguðumst þetta á sínum tíma þannig að við sögðum að markmið stjórnvalda ætti að vera að tryggja öllum möguleika eins og framast væri kostur og í raun ætti að vera hægt að hafa það án undantekninga að menn ættu þess kost að stunda nám í heimabyggð sinni til 18 ára aldurs að minnsta kosti og greiða götu þess með öllum tiltækum ráðum, með skólasetrum eða útibúum, með fjarnámsmöguleikum og öðru slíku eins og vísar eru að á ákveðnum stöðum og lofa góðu, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum. En svo er þetta líka spurning um kostnað þegar því verður ekki forðað að menn þurfi að sækja sér nám um langan veg og eitt mesta misrétti sem fjölskyldur í landinu búa við í dag er alveg tvímælalaust sá gríðarlegi kostnaður sem leggst á fjölskyldur á þeim svæðum sem þurfa að senda börn eða ungmenni frá sér um langan veg til náms.

Kannanir liggja fyrir sem sýna að sá kostnaður gæti hlaupið á tölum af stærðargráðunni 500–700 þúsund og alveg upp í yfir eina milljón króna. Vísa ég þar m.a. í könnun sem gerð var á kostnaði framhaldsskólanema af sunnanverðum Vestfjörðum sem ýmist fóru til náms á Ísafirði, Vesturlandi eða í Reykjavík áður en framhaldsskóli tók til starfa á norðanverðu Snæfellsnesi og síðan setrið á Patreksfirði. Hæstu tölurnar voru ef menn fóru t.d. til Reykjavíkur og leigðu þar húsnæði og með fullum ferða- og uppihaldskostnaði voru rauntölur, sem fengnar voru úr gögnum frá foreldrum barna eða námsmanna í þessum aðstæðum, af þessari stærðargráðu, þannig að þar er ekkert um að villast. Í því ljósi skoðað og bara út frá því hvað kostar t.d. að vera í heimavist framhaldsskóla á Akureyri, á Laugarvatni eða hvar það er, þá er dreifbýlisstyrkurinn auðvitað skammarlega lágur. Sú skömm stendur upp á þá sem á því hafa borið ábyrgð á undanförnum árum að hækka hann ekki meira og það er auðvitað sá meiri hluti sem ráðið hefur við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Ég tek hjartanlega undir að það mál má ekki gleymast og það misrétti. En nemendur í framhaldsskólum, einmitt af þessum svæðum, bera líka þennan bókakostnað og innritunar- og efniskostnað sem við erum að tala um og við sem stöndum að þessu frumvarpi viljum að hverfi.

Mér finnst alveg ástæðulaust að þvæla málin eða gera þau flóknari en þau eru. Hér er flutt frumvarp með mjög einföldum og skýrum boðskap sem er algjörlega samhljóða kosningaloforði Samfylkingarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég held þess vegna að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hljóti fyrirvaralaust að fagna þessu frumvarpi og lýsa stuðningi við það, því það stendur hér í landsfundarályktun Samfylkingarinnar 2007, menntastefnu, með leyfi forseta: „Grunnur framtíðar – allir geta lært!“

Og töluliður 5:

„Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld.“

Öllu skýrara getur það ekki verið og þetta er nákvæmlega það sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Varðandi skilgreiningar þá svaraði hv. þm. 1. flutningsmaður, Árni Þór Sigurðsson, því vel og hér er auðvitað vísað til kennslu- og námsgagna er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár og að það hlyti í grunninn að vera viðmiðunin í þessu og síðan nánar útfært í reglum eða reglugerð eftir þörfum.

Mér finnst málið ákaflega einfalt og skýrt og að mínu mati eru engin efni til að gera þann mismun á skólastigum sem hefur verið við lýði að það sama gildi ekki um framhaldsskólann og grunnskólann. Það er eins og hver önnur forneskja að meðhöndla framhaldsskólann á einhvern annan hátt en grunnskólann þó svo að skólaskylda nái ekki upp úr framhaldsskólanum, einfaldlega í ljósi þess að hann er orðinn hin almenna regla í dag og ef 18 ára skólaskyldualdur í þeim skilningi að stjórnvöldum sé skylt að bjóða upp á námið er í vændum, þess þá heldur.

Í raun má segja sama niður á við. Það eru engar röksemdir sem halda vatni gagnvart því að meðhöndla leikskólann öðruvísi en grunnskólann. Þá erum við auðvitað komin inn á það sem hefur verið baráttumál okkar frá byrjun, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að um algjört gjaldfrelsi þess náms verði að ræða í almennu opinberu skólakerfi. Þá fyrst eru þessi mál í lagi og ekki orð um það meir.

Það eru mér heldur vonbrigði að hæstv. menntamálaráðherra skuli bregðast við málinu með þeim hætti sem hér bar raun vitni og ef eitthvað var mátti kannski skilja það þannig að þetta ætti ekki erindi inn í þá vinnu menntamálanefndar sem stendur yfir, sem hins vegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson, vísaði til. Hér hafa verið færð fram rök fyrir því að það hljóti að liggja á borðinu nokkuð traustur þingmeirihluti fyrir þessu máli í öllu falli ef ekki bara að um það ætti að geta tekist algjör samstaða sem væri náttúrlega langæskilegast. Ég hvet því sjálfstæðismenn, með hæstv. menntamálaráðherra í broddi fylkingar, til að hugsa sinn gang og athuga það vel hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki fallist á það til samkomulags í þessum efnum að það verði tekið inn bara skýrt og óútþynnt þannig að málið verði algjörlega kristaltært að bækur, kennslu- og námsgögn verði án endurgjalds og ríkinu skylt að leggja þau til og að innritunar- og efnisgjöld falli brott. Þetta er óverulegur tekjupóstur og skiptir ekki neinum sköpum í sambandi við fjárframlög til þessa málaflokks. Þetta væri góð fjárfesting og þetta er jafnréttismál. Þetta gæti líka á sinn hátt tengst því vandamáli sem menn ræða oft sem er brottfall úr skólum og eru þó kannski ekki síður þröskuldur í vegi þess að menn fari inn í skólana aftur ef þeir hafa gert hlé á námi sínu, endurinnritunargjöldin. Það standa mörg og mjög gild rök fyrir því að samþykkja þetta frumvarp en engin sem ég get tekið gild sem mæla gegn því.