135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er náttúrlega ákaflega nærtækt að svara því játandi þar sem frumvarpsákvæðin hér eru í samræmi við það sem er í grunnskólanum, enda er ekki tiltakanleg óánægja að því ég best veit með framkvæmd þessara mála í grunnskóla.

Það verða auðvitað alltaf einhver jaðartilvik sem þarf að skilgreina og það verður líka þróun í þessum efnum. Ég býst við að fyrir tíu árum hefðu menn ekki verið uppteknir af því að svo kynni að fara að tölvur yrðu almennt flokkaðar sem námstæki og frekar að þar væri þá um að ræða einhvern viðbótarútbúnað sem tilheyrði persónulegum notum, hlutir sem menn tækju með sér heim o.s.frv. Augljóslega er tölvubúnaður í skólunum hluti af námsgögnum þegar hann er notaður þannig. Ef skóli kýs að leysa það þannig að allir nemendur fái fartölvur þá eru þær líka námsgögn í mínum huga ef sú lausn er valin. Svo breytast þessir hlutir í samræmi við þróun og tæknibreytingar o.s.frv.

Ég held að þetta muni ekki valda neinum vandræðum. Aðalatriðið er að reynt sé að hafa lagatextann skýran og afdráttarlausan og það sé ljóst hvað fyrir löggjafanum vakir, að kennslu- og námsgögn sem tilheyra náminu, reglubundnu námi, séu í boði án endurgjalds og að innritunar- og efnisgjöld séu ekki innheimt.

Það verður líka að vera vel á verði gagnvart því ef undanþágumöguleikar eða hjáleiðir eru opnaðar að það vefji ekki upp á sig, eins og ég tel reyndar að hlutirnir hafi stundum haft tilhneigingu til að gera í grunnskólanum. Og talandi sem foreldri sem átt hefur hvert barnið á fætur öðru þar þá hefur manni ansi oft fundist að tilhneigingin væri sú að allt nýtt og allar viðbætur þyrftu einhvern veginn að borgast af foreldrunum. Ég held að það sé alveg nóg að glíma við það sem er til hliðar, tómstundirnar, ferðalög, þannig hlutir, þar sem við vitum að efnahagur foreldra verður strax viðkvæmt (Forseti hringir.) úrlausnarefni þegar verið er að reyna að finna út úr því hvort menn geti ráðist í þetta eða hitt fyrirtækið.