135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:25]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þetta mál sem ég er 1. flutningsmaður að og vil nota tækifærið til að og óska hv. þm. Huld Aðalbjarnardóttur til hamingju með jómfrúrræðuna og þakka henni fyrir ræðuna sem var að mínum dómi alveg á sínum stað. Ég get tekið hjartanlega undir það sem kom fram í máli hennar að það eru auðvitað fjölmörg viðfangsefni sem við er að glíma í þessum málaflokki, málefnum framhaldsskóla og framhaldsskólanema og hvað varðar jafnrétti til náms og mismunandi aðstöðu vítt og breitt um landið. Ég held að það geti verið samdóma álit okkar allra að þar þurfi að gera betur. Það er vonandi bjartari framtíð í augsýn hvað það snertir, a.m.k. er hugsunin sú að reyna að efla nám í heimabyggð, færa fræðsluskylduna upp í 18 ár sem væntanlega þýðir það að hið opinbera verður að sjá til þess að allir geti stundað nám til 18 ára aldurs í heimabyggð.

Ég tek undir að þetta er mikið jafnréttismál og kannski ekki síst mikilvæg byggðaaðgerð, vegna þess að við þekkjum, eins og hér hefur verið bent á, svo ótal mörg dæmi um að foreldrar hafa nánast talið sig knúin til að flytja á mölina, ef svo má segja, flytja á suðvesturhornið á eftir börnunum sem hafa farið í framhaldsskóla, því að þeir hafa ekki viljað, ekki endilega allir, senda þau 16 ára gömul ein til höfuðborgarinnar, eða í öðrum tilfellum, eins og hér var orðað, hvert barnið á fætur öðru eða hvert barnið rekur annað. Margir foreldrar hafa ekki viljað að þau færu ein til Reykjavíkur eða hingað á suðvesturhornið og þetta hefur knúið fjölskyldur til að taka sig upp og flytjast búferlum. Atriði eins og jafnrétti til náms er þess vegna ekkert síður byggðamál.

Ég þarf svo sem ekki að fara mjög ítarlega yfir það sem hér hefur verið sagt. Ég get sagt að mér finnst tónninn í málflutningi hv. þm. Guðbjarts Hannessonar vera jákvæður gagnvart þessu máli efnislega. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfðum þessa sömu áherslu fyrir kosningar og vonuðumst til þess að um það gæti tekist góð samstaða í þinginu miðað við þann málflutning sem flokkarnir höfðu kynnt fyrir kosningar. Það er því eðlilegt að við komum með málið inn í þingið með þessum hætti og væntum þess að menn standi við skoðanir sínar og sannfæringu í því efni. Þess vegna eru það líka vonbrigði þegar hæstv. menntamálaráðherra kemur hér og nálgast málið þannig að hún sé heldur andvíg því að þetta verði gert og mér fannst jaðra við að hæstv. ráðherra væri andvíg því að málið yrði tekið til umfjöllunar í hv. menntamálanefnd. Ég vil þá bara segja að það er auðvitað ekki verkefni ráðherra eða framkvæmdarvaldsins að segja þinginu fyrir um það hvernig það meðhöndlar mál sem eru borin fram hér með þinglegum hætti. Hér er mælt fyrir frumvarpi og það kann vel að vera að menn hafi misjafnar skoðanir á innihaldi þess en það á að sjálfsögðu að fá þinglega meðferð og fara inn í viðkomandi nefnd til umfjöllunar og þar geta menn kosið að gera við það sem þeir kjósa. En ráðherrann getur auðvitað ekki gefið nein fyrirmæli um það inn í þingið hvernig taka eigi á málinu þar.

Varðandi það sem hér hefur verið vakið máls á um skilgreiningar og annað slíkt, þá segi ég enn og aftur, eins og ég gat sagt í stuttu andsvari, að mér finnst það ekki beinlínis vera verkefni löggjafans að skilgreina nákvæmlega hvaða einstök atriði heyra undir námsgögn í þessu efni en þó er talað um í þessu frumvarpi „kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár“ og það er þá hinn eiginlegi rammi sem löggjafinn mundi setja að það sem heyrir undir aðalnámskrá er skilgreint sem kennslu- og námsgögn. Það er væntanlega ráðuneytisins að gefa út aðalnámskrána og skilgreina nákvæmlega hvað þar er á ferðinni.

Auðvitað skildi ég hv. þm. Guðbjart Hannesson mætavel að þetta verður örugglega til umræðu í þingnefndinni en væntanlega ekki inni í lagatexta, hvorki varðandi það sem hér er lagt til né frumvarp menntamálaráðherra. Ég skil það ekki svo að menn fari að telja upp einstakar bækur eða kennslugögn í því efni, þó að ég viti ekki nákvæmlega hvernig nefndin muni taka á því.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og vonast auðvitað til að málið fái góða og jákvæða umfjöllun og góðan stuðning á vettvangi menntamálanefndar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að markmiðið af hálfu okkar flutningsmanna er fyrst og fremst að ná fram tilgangi frumvarpsins, að hann komist til framkvæmda með einhverjum hætti. Ef það getur gerst með því að efnisinnihald þess verði tekið inn í framhaldsskólafrumvarpið sem er til meðferðar í nefndinni, þá er það gott og blessað og ég mundi fagna því. Það sem okkur finnst skipta mestu máli er þetta jafnréttismál sem við teljum vera, að stuðla að jafnrétti til náms og tryggja það, og það er í samræmi við áherslur okkar vinstri grænna og áherslur annarra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar, annarra en Sjálfstæðisflokksins, eins og ég hef þegar rakið. Ég vonast til að málið fái góða meðhöndlun í nefndinni.