135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get algerlega fullvissað hæstv. ráðherra um að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af öðru en að Háskólinn á Akureyri sé vel stemmdur gagnvart þessu máli. Ég held að hann sé nefndur næstum því að segja í annarri hverri línu í þessari tillögu og greinargerðinni með henni. Það dettur engum annað í hug en hann verði alveg miðlægur í því starfi sem þarna yrði unnið og ég legg þann skilning í — nú tek ég það fram að ég er ekki einn um að móta þessar áherslur eða túlka þær og er hér að byggja á gögnum sem mér hafa verið send frá ýmsum aðilum — en ég legg fremur þann skilning í að hér sé verið að tala um aðstöðu, rannsóknaraðstöðu, rannsóknarsetur heitir það enda í tillögugreininni. Það er ekki endilega verið að tala um einhverja stofnun sem eigi að vera á samkeppnisgrunni við aðrar heldur að þetta sé aðstaða, vettvangur fyrir rannsóknir tengdur við safn þar sem aðrir aðilar vinni í samstarfi eins og Háskólinn á Akureyri, rannsóknarstofnanirnar sem ég nefndi, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun og aðrir slíkir aðilar.

Ég held að þetta sé ekki í neinni mótsögn við það sem hæstv. ráðherra var að nefna og ég tek undir það að samningurinn við Háskólann á Akureyri var gríðarlega mikilvægur og gleðilegt þegar hann var í höfn og þar er einmitt ætlunin og það hefur allan tímann verið ætlunin með sjálfri tilvist Háskólans á Akureyri að hann ekki síst legði mikla áherslu á sjávarútvegsgreinarnar enda var þörf á því og heldur betur að sinna þeim betur en gert hafði verið fram að því í háskólasamfélaginu þegar hann tók til starfa. Þetta er að sjálfsögðu liður í þeirri hugmyndafræði, að þetta samfélag við Eyjafjörðinn verði enn eflt akkúrat á þessu sviði.