135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við mjög athyglisverðu máli sem hljóðar um stofnun sjávarlíffræðisafns og rannsóknarsetur á Akureyri sem ég er stuðningsmaður að enda er ég einn af flutningsmönnum. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, eftir að hafa hlustað hér á umræður þá held ég að það sé ekki djúpstæður ágreiningur á milli manna um að vinna að framgangi þessa máls enda er það svo að þingmenn úr þremur flokkum, Vinstri grænum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki eru flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu og ég er þess fullviss að það megi finna fulltrúa úr öllum flokkum hér á landi sem eru tilbúnir til að beita sér fyrir því að stofnað verði sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri og þegar menn ræða um Háskólann á Akureyri í þessu sambandi þá skulum við ekki gleyma því að Háskólinn á Akureyri hefur lagt mjög mikla áherslu á sjávarlíffræði og rannsóknir þeim tengdar. Ég hef ekki orðið var við annað að undanförnu þegar maður ræðir við sjómenn og fólk vítt og breitt um landið að íslenskur sjávarútvegur sé ekkert of vel haldinn af því að fá sérfræðiráðgjöf þegar kemur að lífríkinu hringinn í kringum landið. Ég held að flestir séu sammála því að við sem þjóð þurfum að efla rannsóknir á auðlindum okkar og lífríki hafsins. Þetta höfum við því miður vanrækt. Ég held að flestir séu sammála um það og hér er komin fram þingsályktunartillaga um að auka rannsóknir á lífríki hafsins og veitir ekki af eins og ég sagði áðan.

Þá er komið að því að velta því fyrir sér hvar ætti að staðsetja slíkar rannsóknir. Ég tel það einboðið, hæstv. forseti, að við staðsetjum slíka starfsemi á landsbyggðinni þar sem undirstaða sjávarútvegsins er og þar sem hann er nú stundaður. Ég hef oft sagt að vagga sjávarútvegs sé í Eyjafirði. Þar er gríðarlega mikil starfsemi á sviði sjávarútvegs auk þess sem Háskólinn á Akureyri hefur sérhæft sig í þeim efnum. Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að ég held að forsvarsmenn Háskólans á Akureyri taki því vel að útvega rannsóknaraðstöðu eða húsnæði undir rannsóknir á þessu sviði þar innan dyra sem gæti þá stutt við það starf sem nú þegar fer fram innan veggja Háskólans á Akureyri. Síðan snýr þessi þingsályktunartillaga að öðrum þætti sem er safnamál, að stofna sérstakt sjávarlíffræðisafn. Eins og ég segi vil ég skilja þetta í tvennt, annars vegar að staðsetja þetta rannsóknarsetur í tengslum við starfsemi háskólans og hins vegar sjávarlíffræðisafnið. Þegar ég tala um að rannsóknarsetrið mundi efla starfsemi Háskólans á Akureyri þá vil ég meina að það veiti ekkert af því miðað við þær fréttir sem við höfum verið að fá. Þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið hafa ekki beint verið til þess fallnar að efla starfsemi háskólasamfélagsins á Akureyri. Ég vil minna á að umhverfisráðherra tók nýlega ákvörðun um að flytja forstöðumann veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar sem er staðsettur í þessu húsnæði suður yfir heiðar til Reykjavíkur. Við tölum um það í orði og við viljum hafa það á borði að við eflum fræðimannasamfélagið í hinum dreifðu byggðum og kannski ekki hvað síst á Akureyri sem mundi efla fræðimannasamfélagið þar. Ég tel því einboðið að standa að því að stofna rannsóknarsetur sem þetta. Þetta rannsóknarsetur gæti haft prýðilegt samstarf við til að mynda rannsóknir í sjávarspendýrafræðum á Húsavík sem nú hefur nýlega verið hleypt af stað. Það er mjög spennandi verkefni. Ég tel að þetta muni allt styðja hvert annað og er sammála þeirri túlkun þeirra þingmanna sem hafa sagt það hér að þetta sé samvinnuverkefni en ekki samkeppnisverkefni á milli svæða vítt og breitt um landið. Ég legg mikla áherslu á að við þurfum að rannsaka auðlindir þjóðarinnar betur, sérstaklega í hafinu.

Síðan komum við að því, hæstv. forseti, að líta á safnaþáttinn í þessu. Það er náttúrlega til vansa fyrir okkur sem þjóð að við skulum ekki hafa byggt upp sjávarlíffræðisafn. Ég er á því að þessi undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar eigi annað og betra skilið en það að við látum þessi mál danka. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því að stofnun sjávarlíffræðisafns á Akureyri mundi styrkja ferðaþjónustuna á Norðurlandi til muna og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan þá væri samstarf til að mynda við Síldarminjasafnið á Siglufirði, Vesturfarasetrið á Hofsósi og Hvalasafnið á Húsavík mjög ákjósanlegt í þessu samhengi. Það er líka alveg ljóst miðað við síðustu fréttir af ástandi þorskstofnsins og allar uppsagnir í sjávarútvegi að þá er það einfaldlega þannig að landsbyggðin er að missa mörg hundruð störf úr sínum aski þessa dagana. Því þurfum við að byggja upp aðrar atvinnugreinar líka á landsbyggðinni. Talandi um stórkostlegustu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar þá get ég alveg séð það fyrir mér að þessi tillaga gæti verið hluti af þeim mótvægisaðgerðum sem hæstv. forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafa farið fram á að hæstv. byggðamálaráðherra endurskoði. Ég tel að hér sé komin alveg upplögð tillaga inn í þá vinnu því þetta mundi styðja ekki bara fræðasamfélagið á Akureyri heldur einnig aðra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og gera Norðurland að fýsilegri stað hvað þessi mál áhrærir.

Ég legg því mikla áherslu á að þetta mál fái þinglega meðferð. Fulltrúar frá þremur stjórnmálaflokkum standa að þessari þingsályktunartillögu og ég er alveg viss um að þegar menn fara yfir þetta mál í nefnd þá sjái þeir hversu mikil lyftistöng þetta mál, ef það yrði að veruleika, yrði fyrir Akureyri og Norðurland og ferðaþjónustuaðila þar. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að að sjálfsögðu má skoða orðalag og hvort menn séu tilbúnir að leggja af stað í eitthvert samstarfsverkefni þar sem þeir kanni hvort grundvöllur sé fyrir uppbyggingu af þessu tagi. En ég er alveg viss um að sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi sem og háskólasamfélagið við Háskólann á Akureyri væru tilbúnir að koma að þessari vinnu og mér fyndist ekki gott ef þessi þingsályktunartillaga mundi daga uppi innan þingsins. Ég tel það að minnsta kosti einnar messu virði að skoða þessa hugmynd í þessu samhengi öllu sem ég hef rakið hér og fara í það því mér finnst þetta það góð hugmynd að hún megi ekki verða að engu í þinglegri meðhöndlun. Því hvet ég þingheim til að vinna að þessu, hvort það megi breyta einhverju orðalagi í þessu. Ég tel það brýnast að menn skoði þessi mál til hlítar því hér er um mjög brýnt mál að ræða fyrir fræðasamfélagið á Akureyri, fyrir háskólasetrið á Húsavík og fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ef við setjum þetta í samhengi við þær fréttir sem þessi byggðarlög hafa verið að fá vegna skerðingar þorskkvótans þá er þetta upplagt mál sem hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem nú á að endurskoða og fín hugmynd í tengslum við það mál allt saman.