135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á hér áðan, þakka hv. þm. Ellerti B. Schram, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og meðflutningsmönnum fyrir þessa tillögu. Tillagan hljóðar að mínu mati upp á það að við eigum að fjölga hreyfistundum almennt hjá fólki í samfélaginu en fyrst og síðast eigum við að beina sjónum okkar að börnunum til þess að hreyfing verði hluti af lífsstíl þeirra til lengri tíma litið.

Stóra málið er viðhorfsbreytingin sem byrjar — eins og með lesturinn — heima fyrir. Við sjáum þessu á vissan hátt skilað inn í skólakerfið eins og við erum að tala um í leikskólum. Þar sjáum við sérhæfingu, leikskóla sem leggja áherslu á náttúrufræði eða tónlist, en líka frábæra leikskóla sem leggja sérstaka áherslu á hreyfingu og íþróttir og ég nefni einn merkan leikskóla í Kópavogi sem hefur sérstaklega einblínt á þetta og fleiri leikskóla.

Það sama á við um grunnskólann. Ég vil undirstrika að við höfum þrjár skyldustundir í íþróttum í námskrá, þ.e. tvær í leikfimi og eina í sundi. Það er auðvitað ekki nóg, þeim mætti gjarnan fjölga. Ég vil hins vegar benda á að sveitarfélögum og skólayfirvöldum er í lófa lagið að breyta áherslum sínum í þá veru en þá verðum við líka að tilgreina í hvaða fögum fækka á kennslustundum. Á að fækka stundum í íslensku? Á að fækka stundum í raungreinum? Það verður þá að fylgja hvar menn ætla að fækka stundum á móti.

Aðalatriðið er að við verðum að uppfylla þær þrjár stundir sem við höfum og við þurfum að fjölga hreyfistundunum, hvernig sem við gerum það, innan skólans. Það verðum við að gera á einn eða annan hátt og við verðum að hvetja börnin okkar til að hreyfa sig. Skólarnir hafa mjög mikinn sveigjanleika í viðmiðunarstundaskrám til að fjölga tímum, m.a. til þess að efla vægi íþrótta. Svigrúm gefst og möguleikinn er til staðar í kerfinu eins og það er núna, (Forseti hringir.) þetta er spurning um viðhorf og skólastefnu viðkomandi sveitarstjórnar.