135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:17]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni og nefna þau atriði sem hún gerði. Hér er litið svo á að námskrá grunnskólanna sé leiðarvísirinn, sé forsendan fyrir því að skólarnir geti lagt aukna áherslu á íþróttakennslu og hreyfingu meðan á námi stendur. Ég hefði haldið að fyrsta skrefið væri að breyta námskránni, hafa eina hreyfistund á hverjum degi í stað þess að hafa þrjá leikfimitíma í viku. Ég er kannski ekki tilbúinn til þess á þeim stutta tíma sem hér gefst að útskýra úr pontu hvernig það verður útfært. Ég minni aðeins á, eins og ég sagði áðan, að þetta er spurning um að kenna unga fólkinu að hreyfa sig. Það er ein af undirstöðum þess að fólk gangi áfram menntaveginn og út í lífið þannig að það sé fært um það. Ef fólk hreyfir sig ekki, verður feitt, einangrast það andlega, líkamlega og félagslega. Það dregur dilk á eftir sér þannig að leggja verður ríka áherslu á þessi grundvallaratriði. Ef ekki í grunnskólunum þá hvar?