135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:22]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég tek hér til máls þar sem ég er meðflutningsmaður þingsályktunartillögunnar og tel hana afar mikilvæga. Hún er ekki eingöngu mikilvæg vegna þess að hún hreyfir við stóru og miklu máli heldur ætti hún að virka hvetjandi, fyrst hún er tekin upp á hinu háa Alþingi ætti hún að virka hvetjandi til þeirra sem á hlýða.

Við vitum að samkvæmt lögum ber grunnskólanum að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, eins og það heitir, og grunnskólanum ber að mennta fólk og mennta nemendur með einum eða öðrum hætti. Það að breyta um lífsstíl og kenna ungum börnum að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl er ekki síður mikilvægt í mínum huga en að kenna þeim íslensku, stærðfræði, ensku eða dönsku. Heilbrigður lífsstíll er undirstaða þess að þeim farnist vel á öðrum vettvangi, hvort heldur er í námi eða í lífinu almennt.

Ég þekki vel námskrá grunnskólans, þekki vel sjálfstæði grunnskólanna og þá meginhugsun hæstv. menntamálaráðherra að efla sjálfstæði skólanna. Skólarnir eru engu að síður bundnir af viðmiðunarstundaskrá svokallaðri og flestar greinar gera kröfu um sínar föstu stundir eins og þær eru tilnefndar í námskrá hverju sinni. Það að leggja til að nemendur í grunnskóla hreyfi sig að meðaltali í u.þ.b. 40 mínútur á hverjum degi er stórt skref í átt til þess að heilbrigðisvæða þjóðina, það er ekkert flóknara en það. Það er kannski stærsta skrefið í að heilbrigðisvæða þjóðina að kenna börnum frá unga aldri að hreyfing skipti máli. Þar bera allir ábyrgð, samfélagið ber ábyrgð, skólinn ber ábyrgð, sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð, allir bera ábyrgð, skólamenn og ekki síst foreldrar. Foreldrar geta axlað sína ábyrgð með því að beina börnum sínum á þessa braut, ekkert endilega að stunda einhverja afmarkaða íþrótt heldur að hreyfa sig, hlaupa, ganga, upplifa landið sitt, nærsamfélagið úti undir beru lofti, það er það sem skiptir máli.

Foreldrar hafa aðkomu að skólunum hver og einn í sínu sveitarfélagi. Þar geta þeir haft áhrif á þær áherslur sem grunnskólinn leggur hverju sinni kjósi þeir svo. Með þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir um leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem eru til umræðu í menntamálanefnd, er enn frekar vettvangur fyrir foreldra til að láta að sér kveða hvað varðar hagsmuni barna sinna. Þar geta þeir gert þá kröfu á skólann í sínu nærsamfélagi að þessi þáttur verði efldur.

Við erum að tala um u.þ.b. 40 mínútur á dag í hreyfingu fyrir börnin okkar, tvo tíma á viku í íþróttahúsi og einn tíma í sundlaug og hina tvo dagana yrði það þá hvers konar hreyfing sem skólinn kýs að bjóða nemendum sínum upp á. Það er kristaltært í mínum huga að með þessu skrefi stígum við, og ég ítreka það, stórt skref í að heilbrigðisvæða þjóðina og til lengri tíma litið er það ekki spurning að það er til hagsbóta fyrir alla, einstaklinginn og samfélagið. Þess vegna, hæstv. forseti, óska ég eftir því að hv. menntamálanefnd taki þingsályktunartillöguna til alvarlegrar skoðunar og styðji flutningsmenn hennar í því að hvetja í það minnsta til þess að hreyfitímar í grunnskólum og væntanlega einnig í framhaldsskólum verði u.þ.b. 40 mínútur á dag fimm daga vikunnar. Þá stígum við stórt skref sem mun varða þetta samfélag miklu um langa framtíð.